Enski boltinn

Fleiri leik­menn á Eng­landi í vand­ræðum: Men­dy hélt ný­ár­spartí

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mendy sést hér fyrir miðri mynd á æfingu City á síðasta ári.
Mendy sést hér fyrir miðri mynd á æfingu City á síðasta ári. Matt McNulty/Getty

Manchester City segir í yfirlýsingu sinni að þeir séu vonsviknir með framkomu varnarmannsins Benjamin Mendy en hann hélt nýárspartí, þrátt fyrir strangar reglur í Englandi.

The Sun greindi frá því að franski landsliðsmaðurinn hafði haldið partí heima hjá sér í Cheshire hverfinu þar sem gestir víðs vegar að komu og fögnuðu áramótunum.

Samkvæmt reglum í Englandi er ekki leyfilegt að hittast þeir sem ekki búa saman en Tottenham og West Ham fordæmdu meðal annars framkomu fjögurra leikmanna í gær.

Fleiri leikmenn hafa brotið reglurnar. Aleksandar Mitrovic, framherji Fulham, er sagður hafa brotið þær er hann hittist með fjölda fólks í Lundúnum en síðustu tveimur leikjum Fulham hefur verið frestað vegna kórónuveirasmita.

Í sama teiti var miðjumaður Crystal Palace, Luka Milivojevic, en hann var hins vegar í byrjunarliðinu hjá Crystal Palace í gær. Roy Hodgson, stjóri Palace, varði þá ákvörðun eftir leikinn en baðst þó afsökunar á framferði Milivojevic.

Leik Man. City gegn Everton var frestað fyrir tæpri viku síðan en nokkuð hefur verið um kórónuveirusmit í herbúðum City. Þeir leika gegn Chelsea á útivelli í dag og verða án nokkurra leikmanna vegna smita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×