Sólris í Reykjavík á morgun er klukkan 11.03 og sólsetur klukkan 16.08. Lengd birtutíma morgundagsins telst vera fimm klukkustundir og sex mínútur. Þann 21. desember var dagurinn fjórar klukkustundir og sjö mínútur. Lengingin er um 58 mínútur frá því dagur var stystur, um 19 mínútur að morgni en um 39 mínútur síðdegis, samkvæmt tímatalsvefnum timeanddate.com.

Lengingin fyrstu dagana eftir vetrarsólhvörf er það lítil að henni er gjarnan líst sem hænufeti. Núna gerist þetta hraðar og lengingin í borginni þessa vikuna er um fimm mínútur milli daga.
Birtubreytingin er misjöfn eftir því hvar menn eru staddir á landinu. Þannig hefur daginn lengt um eina klukkustund og 36 mínútur í Grímsey, nyrstu byggð landsins, en um 54 mínútur í Vestmannaeyjum, syðstu byggð landsins.
Á Akureyri verður lenging dagsins orðin ein klukkustund og fimmtán mínútur á morgun. Þar varir dagsbirtan á morgun í fjórar klukkustundir og tuttugu mínútur, samanborið við þrjár klukkustundir og fjórar mínútur á vetrarsólstöðum. Þar er lengingin núna um sex mínútur milli daga.

Á stysta degi ársins varði dagsbirtan í Grímsey í tvær klukkustundir og ellefu mínútur en á morgun varir hún þar í þrjá klukkustundir og 48 mínútur. Lengingin næstu daga þar er einnig hraðari, eða yfir sjö mínútur milli daga.
Í Vestmannaeyjum var stysti dagur ársins fjórar klukkustundir og þrjátíu mínútur. Dagurinn hjá Eyjamönnum á morgun verður kominn upp fimm klukkustundir og 23 mínútur. Vestmanneyingar njóta þannig 17 mínútum lengri birtutíma á morgun heldur en Reykvíkingar og einni klukkustund og 35 mínútum lengri en Grímseyingar.
Sólin nær einnig stöðugt hærra upp á sjóndeildarhringinn. Í Reykjavík er hádegi á morgun klukkan 13.35 og þá verður sólarhæð 4,3 gráður. Á hádegi þann 21. desember var sólarhæð 2,7 gráður í borginni.