Þessi spurning vaknaði um leið og sigur Biden í forsetakosningunum vestanhafs lá fyrir og ljóst varð að Trump hugðist ekki halda í hefðina þegar kæmi að valdaskiptum. Fregnir herma hins vegar að hermálayfirvöld hafi gert ráð fyrir þessum möguleika og því ekkert að óttast.
Kjarnorkufótboltinn er auðvitað alls enginn fótbolti; hann er feit, leðurklædd málmtaska sem vegur um það bil 20 kíló og er í vörslu hermanns sem fylgir forsetanum hvert sem hann fer.
Sögum ber ekki saman um hvað taskan inniheldur en flestir eru sammála um að í henni sé að finna bók þar sem mögulegar aðgerðir eru útlistaðar og upplýsingar um staðsetningar kjarnorkuvopna Bandaríkjanna.
Þá er einnig talað um að í töskunni sé að finna fjarskiptabúnað, þar sem loftnet hefur sést utan á töskunni.
Ein fylgir Trump til Flórída, hin verður eftir í Washington
Eitt er víst, að í töskunni dularfullu er að finna svokallað „kex“ en um er að ræða plastspjald með kóðum sem forsetinn notar til að auðkenna sig. Og það sem gerist á sama tíma og Biden sver embættiseiðinn í dag er að þá virkjast kóðarnir á kexinu hans en kóðar Trump verða úreltir.
Hingað til hefur afhending kjarnorkufótboltans átt sér stað við innsetningarathöfnina, þannig að á nákvæmlega sömu stundu og nýr forseti tekur við, afhendir fylgismaður fráfarandi forseta arftaka sínum töskuna. Skiptin eiga sér stað að tjaldarbaki.

Þar sem Trump verður fjarri góðu gamni í dag, verður þetta með öðrum hætti en svo heppilega vill til að kjarnorkufótboltarnir eru í raun þrír eða fjórir. Einn fylgir forsetanum, annar varaforsetanum og sá þriðji þeim (vanalega) ráðherra sem er útnefndur „eftirlifandinn“, það er að segja er ekki viðstaddur innsetningarathafnir eða stefnuræður forsetans í þinginu.
Þannig verður það í dag að þegar Trump ferðast til Flórída mun ein taska fylgja honum en önnur verður til taks við innsetningarathöfnina. Engin afhending mun eiga sér stað en kl. 11.59 að staðartíma í Washington verður kexið hans Trump virkt og svo verður kex Biden virkt kl. 12.01.
Verður að liggja fyrir hver er með puttann á „takkanum“
Hafa ber í huga að kjarnorkufótboltinn er að sjálfsögðu nokkurs konar varnagli; í langflestum tilvikum myndu ákvarðanir um kjarnorkuárás vera teknar og fyrirskipaðar úr aðgerðamiðstöðinni í Hvíta húsinu.
Skiptin eru hins vegar gríðarlega mikilvæg, þar sem það verður að liggja ljóst fyrir hver er með puttann á „takkanum“ á hverjum tíma.
„Við her-leikum þetta og æfum endalaust í mörg ár,“ segir Buzz Patterson, sem varðveitti kjarnorkufótboltann fyrir Clinton, í samtali við Business Insider.
Skiptin þurfi að ganga snurðulaust.
„Það getur enginn vafi leikið á því hver er með hann; hver ræður för á hverjum tíma,“ segir hann. „Við tökum þessu ekki með léttúð. Það verða engir hikstar. Þetta gerist bara án þess að nokkur taki eftir því, sem er það sem á að gerast.“