Kristófer missti af landsleikjum í nóvember eftir að hafa meiðst í kálfa. Meiðslin hafa áfram truflað hann í fyrstu leikjum Vals á þessu ári, eftir hléið langa sem var í Dominos-deildinni vegna samkomutakmarkana af völdum kórónuveirufaraldursins.
@krisacox spilar ekki með A-landsliðinu í lok mánaðarins vegna meiðsla.
— Arnar Gudjonsson (@ArnarGud) November 17, 2020
Tognaði aftan í læri við útihlaup á frjálsíþróttavelli.
Drengurinn er alinn upp á parketi, en er meinaður aðgangur að slíkum lífsgæðum#korfubolti #ÍSÍ
Kristófer varð til að mynda að hætta leik í 3. leikhluta í 88-81 sigrinum gegn Hetti í gærkvöld. Í stuttu spjalli við Vísi eftir leik kvaðst hann þurfa tíma svo að kálfinn jafnaði sig betur, en þann tíma væri erfitt að finna enda spilað þétt þessar vikurnar. Valur mætir Þór á Akureyri á sunnudaginn og spilar svo þrjá leiki í febrúar þar til að landsleikjahléið kemur 13. febrúar.
„Kristófer meiddist í útihlaupi í „COVID-tíðinni“ í nóvember. Við erum í vandkvæðum með hann. Ef hann stífnar upp í kálfanum þá getur það haft slæmar afleiðingar,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.
Þrátt fyrir að hafa ekki jafnað sig til fulls af meiðslunum er Kristófer atkvæðamestur Valsmanna það sem af er leiktíð með 18,2 stig og 9,3 fráköst að meðaltali í leik.
Með sterkara lið eftir landsleikjahléið
Valsmenn hafa hins vegar verið alveg án landsliðsmannsins Frank Booker vegna meiðsla og þá hefur leit að bandarískum leikmanni ekki skilað árangri enn.
„Booker verður ekki klár fyrr en eftir landsleikjahléið. Við munum bæta við okkur bandarískum leikmanni en ég vil ekki spá mikið í því. Við erum með þetta lið núna og það býr mikið meira í þessu liði en við höfum náð að sýna,“ sagði Finnur. En er ljóst hvenær Valur fær sinn bandaríska leikmann?
„Ég stórefast um að hann verði kominn áður en þetta hraðmót klárast en við sjáum til,“ sagði Finnur, svo búast má við að Valur spili áfram næstu fjóra leiki án bandarísks leikmanns. Hlé verður á Dominos-deildinni, vegna landsleikja, frá 13.-27. febrúar.