Daniels höfðaði málið gegn forsetanum fyrrverandi árið 2018 eftir að hann sagði hana mögulega hafa logið til um hótanir frá ónefndum manni í tengslum við samband hennar og Trump, en hún greindi frá því árið 2011 að þau hefðu átt í ástarsambandi árið 2006. Í kjölfarið hafi henni og dóttur hennar verið hótað ofbeldi.
Hún segir þennan ónefnda mann hafa nálgast sig á bílastæði og sagt henni að „láta Trump vera“, en á þeim tíma hafi hún verið að íhuga að greina frá sambandi þeirra. Árið 2018 birti hún skissu af manninum sem hún sagði hafa nálgast sig á bílastæðinu sjö árum áður.
„Skissa mörgum árum síðar af manni sem er ekki til,“ skrifaði Trump á Twitter í kjölfarið og sagði allt málið vera svikamyllu.
Áfrýjunardómstóll í Kaliforníu-ríki sagði ummæli Trump vera skoðun og því nytu þau verndar tjáningarfrelsisins. Því væru ekki efni til þess að taka málið fyrir.