Innlent

Hringdi í lögreglustjórann vegna Ásmundarsalar á aðfangadag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Samsett/Vísir/Vilhelm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi tvisvar við Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag eftir að lögregla tilkynnti fjölmiðlum um sóttvarnabrot í Ásmundarsal, hvar fjármálaráðherra var staddur. Ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir Áslaugu að hún hafi ekki verið að skipta sér af rannsókn málsins.

Hátt í fimmtíu manns voru samankomnir í Ásmundarsal í Reykjavík á Þorláksmessu, þegar tíu manna samkomubann var í gildi. Lögregla hafði afskipti af samkomunni og greindi frá því í dagbókarfærslu til fjölmiðla að morgni aðfangadags að „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið á staðnum. Síðar staðfesti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að hann hefði verið í salnum.

Bæði Áslaug og Halla staðfesta við Ríkisútvarpið að þær hafi rætt saman í síma um málið á aðfangadag. 

Áslaug segir í svari sínu að hún hafi hringt í Höllu til að spyrja um verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglu og persónuverndarsjónarmið. Hún hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmd lögreglu í málinu. Þá hafi hún ekki rætt málið frekar við lögreglustjórann og ekki haft afskipti af rannsókninni.

Lögregla lauk rannsókn á Ásmundarsalarmálinu í lok janúar og sendi það ákærusviði. Þá greindi fréttastofa frá því nú í febrúar að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði áréttað reglur um samskipti við fjölmiðla við starfsfólk sitt. Embættið hafði áður lagst í skoðun á því hvort dagbókarfærslan, sem þótti óvenju ítarleg, teldist öryggisbrestur í skilningi persónuverndarlaga.


Tengdar fréttir

Rannsókn lokið: Ásmundarsalarmálið sent ákærusviði

Lögregla hefur lokið rannsókn á mögulegum sóttvarnabrotum í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns verður málið sent ákærusviði lögreglunnar í dag, ef það er ekki þegar komið þangað.

Ó­sáttur við Ás­mundar­salar­um­ræðu með mót­mælendur í bak­sýn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kom á framfæri óánægju og furðu með umfjöllun um heimsókn sína í Ásmundarsal undanfarna viku í áramótaþættinum Kryddsíld á Stöð 2 í dag. Hann sagði það skipta máli„að fara rétt með og horfa á staðreyndir“ og kvað það skjóta skökku við að stjórnarandstaða kallaði eftir þingfundi „til að ræða samkomu í húsi hér í bæ“ en ekki „stóru málin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×