Erlent

Halda áfram að nota nafn Trump þrátt fyrir mótbárur hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump ræðir við starfsmenn landsnefndar Repúblikanaflokksins á kjördag í nóvember. Í síðustu viku reyndi hann að setja flokknum stólinn fyrir dyrnar varðandi notkun á nafni hans í fjáröflunarskyni.
Trump ræðir við starfsmenn landsnefndar Repúblikanaflokksins á kjördag í nóvember. Í síðustu viku reyndi hann að setja flokknum stólinn fyrir dyrnar varðandi notkun á nafni hans í fjáröflunarskyni. Vísir/EPA

Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum ætlar að halda áfram að nota nafn Donalds Trump fyrrverandi forseta í fjáröflunarskyni og kynningarefni þrátt fyrir að hann hafi látið lögfræðinga sína krefjast þess að flokkurinn léti af því í síðustu viku.

Í bréfi til landsnefndar Repúblikanaflokksins og tveggja þingframboðsnefnda hans á landsvísu kröfðust lögfræðingar Trump þess að nefndirnar hættu að leggja nafn fyrrverandi forsetans við hégóma í fjáröflunarskyni.

Reuters-fréttastofan hefur eftir ónefndum ráðgjafa Trump að fyrrverandi forsetanum gremjist meðal annars að flokkurinn noti nafn hans til að styðja þingmenn flokksins sem greiddu atkvæði með því að kæra hann fyrir embættisbrot vegna árásarinnar á þinghúsið í Washington-borg 6. janúar.

Landsnefndin svaraði lögfræðingunum og sagði að Trump hefði tjáð Ronnu McDaniel, formanni nefndarinnar, að hann sé samþykkur núverandi notkun flokksins á nafni sínu um helgina. Þá hélt nefndin því fram að hún hefði fullan rétt á að nafngreina opinbera persónu í stjórnmálastarfi sínu.

Trump hefur ekki útilokað að bjóða sig fram aftur til forseta árið 2024 og virðist tilbúinn að halda Repúblikanaflokknum í heljargreipum í millitíðinni. Fyrrverandi forsetinn stofnaði eigin pólitíska aðgerðanefnd til að safna framlögum frá stuðningsmönnum svo að hann geti stutt frambjóðendur í forvölum repúblikana til höfuðs sitjandi þingmanna sem Trump telur að hafi ekki verið nægilega hollir sér persónulega.


Tengdar fréttir

Trump bannar Repúbli­könum að nota nafn sitt í fjár­öflun

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er afar ósáttur við Repúblikanaflokkurinn noti nafn sitt við fjáröflun og á varningi sem seldur er til stuðningsmanna flokksins. Hafa lögmenn hans sent kröfu um að því verði hætt tafarlaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×