Skoðun

Hagkvæm græn endurreisn

Bjarni Bjarnason skrifar

Við Íslendingar búum sennilega við mesta rafmagnsöryggi allra þjóða. Ástæðan er einföld. Á Íslandi er unnið fimm sinnum meira rafmagn en þarf til allra þarfa samfélagsins, ef stóriðjan er frátalin. Hið almenna samfélag, sem notar eingöngu 20% af því rafmagni sem við vinnum, telur öll heimili, öll fyrirtæki og stofnanir, allan léttan iðnað, fiskvinnslu, landbúnað og einnig ungviðið í fjölskyldunni, rafbílana. Því mætti segja að í stóriðjunni eigum við „varaafl“ sem er fjórfalt meira en nemur öllum almennum þörfum samfélagsins ef í harðbakkann slær.

Virkjanirnar okkar eru tiltölulega ungar, sumar alveg nýjar og þeim er afar vel við haldið. Flutningskerfi rafmagnsins, sem Landsnet rekur, er í grunninn mjög sterkt og er að styrkjast enn frekar. Enda er það svo að afhendingaröryggi rafmagns á Íslandi er iðulega talið með því besta sem gerist í heiminum, hvort sem er í úttektum IMD á samkeppnishæfni, hjá Alþjóðabankanum eða OECD.

Við eigum dæmi um alvarlegt áfall í raforkukerfi þjóðar. Í Japan reið Fukushimajarðskjálftinn yfir fyrir réttum tíu árum. Slökkva þurfti á 55 kjarnorkuhverflum í kjölfarið. Gripið var til skömmtunar, Japanir slökktu ljósin og tóku loftkælinguna úr sambandi. Og þannig færi fyrir mörgum þjóðum ef rafmagnsvinnslan hryndi, en ekki okkur. Engin þjóð kemst með tærnar þar sem við höfum hælana hvað varðar rafmagnsvinnslu á íbúa. Næstir koma Norðmenn en þeir eru ekki hálfdrættingar.

Traustar forsendur grænnar uppbyggingar

Vinnsluöryggi rafmagns, afhendingaröryggi og „varaaflið“ eru traustar stoðir hagkvæmrar, grænnar uppbyggingar nú þegar við þurfum að rétta úr kútnum eftir kórónuveiruna. Við þurfum ekki, frekar en við viljum, að leggja í tugmilljarða fjárfestingar í flutningskerfi Landsnets til að byggja upp framleiðslu sem krefst rafmagns og flutnings á milli landshluta. Við getum strax beitt kröftum okkar og fjármunum í að skapa verðmæti og störf.

„Varaaflið“ í stóriðjunni

Ég geri ráð fyrir því að stóriðja á Íslandi telji það ekki hlutverk sitt að sjá þjóðinni fyrir varafli í neyð. Þannig yrði það nú samt ef á reyndi, að frekar yrði slökkt á nokkrum kerjum í álverunum en að slökkva ljósin á Landspítalanum. Í því felst einfaldlega mikið öryggi fyrir þjóðina að búa að framleiðslugetu á rafmagni sem er fimm sinnum meiri en grunnþarfir samfélagsins. Ef til þessa kæmi fengi Landsnet væntanlega það hlutverk frá löggjafanum að kaupa rafmagn af stóriðjunni og veita því til almennings. Hvernig leikreglurnar yrðu útfærðar í því samhengi er ekki mitt að spá fyrir um.

Jarðvá

Þjóðinni er tíðrætt um jarðvá nú þegar Reykjanes ræskir sig. Alvarleg jarðvá gæti sett rafmagnsvinnslu í landinu úr skorðum. Þannig gæti gos í Bárðarbungu, svo dæmi sé tekið, valdið flóði sem truflaði rekstur virkjana á Tungnársvæðinu. Með sama hætti gæti gos í Hengli sett rekstur virkjana á Hellisheiði og Nesjavöllum í uppnám. Slík truflun gæti varað í lengri eða skemmri tíma. Þá er gott að vita af „varaaflinu“ í stóriðjunni.

Norðausturland

Veruleg og löngu tímabær styrking á flutningskerfi Norðausturlands stendur nú yfir og er langt komin. Hún innifelur sterka tengingu úr Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) norður í Kröflu og Þeistareyki og svo áfram inn til Eyjafjarðar og Akureyrar. Eyjafjarðarsvæðið hefur verið í alvarlegu flutningssvelti árum saman en nú rofar til. Allt Norðausturland verður þá vel tengt. Á svæðinu eru um 1000 MW af rafafli, blanda af vatnsafli og jarðvarma. Stórt álver er við suðurenda landshlutans en kísilver á Bakka nyrst. Vel er því séð fyrir „varaafli“ ef til skakkafalla kæmi.

Suðvesturland

Á Suðvesturlandi eru margar virkjanir, um 2000 MW að afli, góð blanda af vatnsafli og jarðvarma. Flutningskerfi Landsnets á Suðvesturlandi er afar öflugt ef frá er talinn Reykjanesskaginn. Tvö stór álver eru á Suðvesturlandi auk járnblendiverksmiðju og gagnavera. Nóg af „varaafli“ hér.

Tenging milli Norðausturlands og Suðvesturlands

Fjárfestingaáætlun Landsnets til næstu ára nemur 90 milljörðum króna en til samanburðar eru heildareignir fyrirtækisins nú um 100 milljarðar. Megináhersla í fjárfestingum Landsnets felst í að styrkja tengingu milli þessara tveggja flutningskerfa, á Norðaustur- og Suðvesturlandi. Í ljósi þess sem að framan er lýst getur það varla talist forgangsmál og er reyndar óþarft með öllu til skemmri tíma litið.

Aðrir landshlutar og hlutverk Landsnets

Hér eru Vestfirðir sér kapítuli en flutningskerfið þar er aldeilis ófullnægjandi og afhendingaröryggi rafmagns sömuleiðis. Ýmis byggðarlög á Norðurlandi urðu fyrir mikilli rafmagnstruflun í fyrravetur vegna veikrar tengingar út frá meginflutningskerfi Landsnets, sér í lagi frá tengivirkinu á Hrútatungu. Hluti af vandanum var dreifikerfi Rarik en fyrirtækið hefur um árabil unnið skipulega að úrbótum. Mér er sagt að verkefnið á Norðurlandi sé langt komið en það felst einkum í því að rífa loftlínur en leggja jarðstrengi í staðinn. Vestfirðir liggja hins vegar að mestu óbættir hjá garði. Ég tel mikilvægt að Landsnet nýti það fé sem það hefur til ráðstöfunar til þess að tryggja afhendingaröryggi til alls almennings í landinu. Undir það fellur meðal annars að byggja yfir tengivirki þar sem hætta er á að selta hlaðist upp og valdi rofi.

Tekjur og gjöld

Eins og fram hefur komið hefur flutningur rafmagns um kerfi Landsnets minnkað að undanförnu en ekki aukist og því ættu tekjur fyrirtækisins rýrna að öðru jöfnu. Öll fyrirtæki þurfa að sníða sér stakk eftir vexti og ekki síst opinber fyrirtæki í sérleyfisrekstri. Í tilfelli Landsnets er flutningur að minnka og þá ætti stakkurinn að þrengjast. Þvert á móti áætlar Landsnet að fjárfesta fyrir 90 milljarða króna á næstu árum, sem mun að óbreyttu leiða til verulegrar hækkunar gjaldskrár en hún er há fyrir. Hækkun gjaldskrár mun leggjast á almenning og alla atvinnustarfsemi og veikja samkeppnisstöðu landsins. Allir stórnotendur hafa lýst áhyggjum af þessum fyrirætlunum og stærstu rafmagnsframleiðendur eru á sama máli. En áætlanir Landsnets breytast ekkert þrátt fyrir það.

Forgangsröðun verkefna og misskilningur

Landsnet virðist standa í þeirri trú að fyrirtækinu beri að tryggja það fyrir fram að tengja megi nýjar virkjanir og nýja stórnotendur við flutningskerfið hvenær sem er og hvar sem er. Hér er sleginn nýr tónn því þannig hefur aldrei verið staðið að verki. Búrfell var byggt og lína lögð frá virkjun til Straumsvíkur, eftir að gengið hafði verið frá bindandi samningum. Sama má segja um Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa. Tvær öflugar flutningslínur voru lagðar frá Fljótsdalsstöð niður á Reyðarfjörð þegar bindandi samningar lágu fyrir.

Mér vitanlega eru engar stórar virkjanir áformaðar á næstu árum enda eru þær virkjanir sem fyrir eru ekki fullnýttar. Engir samningar við stórkaupendur á rafmagni virðast heldur í burðarliðnum. Við vitum ekki hvenær eða hvort fleiri stórvirkjanir verða reistar á Íslandi. Er rétti tíminn nú að eyða tugum milljarða króna í flutningslínur til að flytja rafmagn frá virkjunum sem hugsanlega verða aldrei byggðar til notenda sem enginn veit hverjir eru eða hvort þeir verða til?

Höfundur er forstjóri OR.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×