Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en nóg var um að vera hjá lögreglu í nótt. Frá klukkan ellefu í gærkvöldi til klukkan fimm í nótt var farið í tólf útköll vegna hávaða í heimahúsum og voru sex ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Rétt eftir miðnætti barst tilkynning um umferðaróhapp í Árbæ þar sem ökumaður hafði misst stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún á tré. Þrír voru í bílnum, ökumaður og tveir farþegar, og voru þau öll flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús til aðhlynningar. Ekki er vitað um áverka þeirra.
Frá klukkan fimm síðdegis í gær til klukkan níu í gærkvöldi bárust nokkrar tilkynningar um fok á höfuðborgarsvæðinu, þá sérstaklega frá byggingarsvæðum. Kamar fauk á byggingarsvæði í Kópavogi og þakplötur fuku af nýbyggingu í miðbæ Reykjavíkur svo fátt eitt sé nefnt. Þá fauk tólf metra skjólveggur frá húsi í Grafarvogi og var björgunarsveit kölluð til aðstoðar.
Þá var tilkynnt um eld í Hafnarfirði þar sem eldur hafði komið upp í sófa. Slökkvilið var kallað á vettvang og var búið að slökkva eldinn um tuttugu mínútum síðar.