Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Þar segir að tilkynning um málið hafi borist laust fyrir klukkan níu á föstudagsmorgun en að málsatvik hafi í fyrstu verið mjög óljós. Þrír hafi verið handteknir í gær en tveimur sleppt úr haldi.
Maðurinn er úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Lögregla segist í tilkynningunni ekki ætla að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Vísir greindi frá því í morgun að rannsókn málsins miði meðal annars að því hvernig maðurinn hlaut áverkana, en grunur leikur á að ekið hafi verið á manninn og hann skilinn eftir í sárum sínum.
Þá herma heimildir að hinir handteknu séu af rúmenskum uppruna en hinn látni er íslenskur og fæddur árið 1990. Ekki er talið að málið tengist morðinu í Rauðagerði.