Ef frumvarpið tekur gildi munu einungis 18 ára og eldri geta keypt nikótínvörur og þá verður óheimilt að skreyta umbúðirnar þannig að þær höfði sérstaklega til barna og ungmenna.
Óheimilt verður að selja nikótínvörur í skólum og á öðrum stöðum þar sem ungmenni koma saman og þá verður óheimilt að auglýsa nikótínvörur eða sýna neyslu þeirra í auglýsingum. Þá verða þær ekki sýnilegar í verslunum, nema í sérvöruverslunum.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að engin lög virðist ná til umræddra vara, þrátt fyrir að þær geti innihaldið nokkuð magn nikótíns, sem sé talið vera ávanabindandi efni.
Þar kemur einnig fram að bæði innflytjendur og seljendur hafi kallað eftir því að reglur verði settar um vörurnar og að þar sem nikótínvörur, sem eru markaðssettar sem tókbaslausar, séu komnar á markað á Íslandi sé mikilvægt að um þær gildi skýrar reglur.
„Einnig hefur borið á því að börn hafi neytt slíkra vara sem getur valdið eitrun ef nikótínmagn er mikið og því mikilvægt að tryggja heilsu og öryggi barna með skýrum reglum um hvernig heimilt sé að markaðssetja og selja slíkar vörur,“ segir í frumvarpinu.
Lagt er til að eftirlit með öryggi varanna og merkingum verði í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og eftirlit með auglýsingabanni verði í höndum Neytendastofu og fjölmiðlanefndar.