Þórólfur Guðnason sagði á upplýsingafundi dagsins að markmiðin með sóttvarnaaðgerðum væru nokkuð ljós; stefnan væri sett á veirufrítt samfélag áður en ráðist yrði í tilslakanir. Það sjónarmið væri meðal annars byggt á upplýsingum um breska afbrigðið sem væri í útbreiðslu um alla heimsálfuna.
Sigríður lýsti þeirri skoðun sinni í Reykjavík síðdegis í dag að sóttvarnayfirvöld þyrftu að hafa heildarmyndina í huga. Í síðustu viku hefðu bæði forsætisráðherra og ferðamálaskoðun sagt veirufrítt samfélag óraunhæft markmið og hún væri sammála því.
„Hann kynnir þetta svona en ég held að það væri áhugavert að heyra hvað þeir sem ætla að sigla þessari skútu segja. Hvort þeir taki undir þetta markmið. Mér finnst þetta bratt markmið, og ég held að það sé algjörlega óraunhæft og ég held að þetta kosti alltof mikið,“ segir Sigríður.
„Heilsufarsleg áhrif á alla þjóðina til lengri tíma“
Að hennar mati þurfi að taka fleiri þætti inn í myndina og ekki aðeins líta á aðgerðir út frá „þröngum lýðheilsuvinkli“. Hún skildi þó afstöðu sóttvarnalæknis, sem væri að reyna að stöðva útbreiðslu faraldursins á skilvirkan hátt, en ráðamenn þyrftu að líta til fleiri þátta.
„Það hefur auðvitað heilsufarsleg áhrif á alla þjóðina til lengri tíma. Það er ekki víst að allir munu tengja við það eftir tvö ár þegar menn kannski ganga inn á spítalann og hefðu mátt búast við betri þjónustu heldur en þeir fá þá, af því það hefur ekki verið hægt að efla hann með sama hætti og menn höfðu áform um áður en veiran kom.“
Aðspurð hvort hún myndi styðja lagabreytingar til þess að renna stoðum undir þá reglugerð sem var dæmd ólögmæt af Héraðsdómi Reykjavíkur sagðist Sigríður ekki gera það.
„Nei, og heilbrigðisráðherra sjálfur hafði ekki hug á því þegar hún lagði sjálf fram frumvarpið. Ef við hefðum samþykkt frumvarp heilbrigðisráðherra óbreytt, þá var þessi lagaheimild ekki til staðar. Hún hefði ekki verið lagagrundvöllur, sú lagabreyting, fyrir þessari reglugerð.“