Náttúruvásérfræðingar á Veðurstofunni funduðu í morgun um stöðu eldgossins á Reykjanesi. Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár, á Veðurstofu Íslands segir að stækka þurfi hættusvæðið eftir breytingar sem urðu á gosvirkninni aðfaranótt sunnudags. „Núna einkennist eldgosavirknin af reglulegum kvikustrókum sem ná allt að þrjú hundruð metra hæð,” segir Sara.
Samhliða þessu geta hraunmolar sem eru allt að fimmtán sentimetrar að stærð skotist nokkuð langt út frá gígnum.
Samkvæmt drögum að nýju hættusvæði er gert ráð fyrir að það verði allt að 650 metrar í kringum öflugasta gíginn, eða gíg númer fimm, þegar vindhraði fer upp í fimmtán metra á sekúndu. Gert er ráð fyrir að hættusvæðið sé nokkuð minna í rólegri vindátt, eða fjögur hundruð metrar.

Sara segir ástæðu fyrir fólk til þess að fara varlega þar sem minni hraunmolar geta einnig skotist lengra. Unnið er að því að breyta gönguleiðinni þannig að hún liggi fyrir utan svæðið.
„Viðbragðsaðilar sem eru að vinna á svæðinu eru að núna að leggja til að breyta gönguleiðinni þannig að það verði bannað að fara inn á þetta hættusvæði,” segir Sara.
Enn sé erfitt að segja til um hvað veldur breyttri virkni en fylgst er með breytingum á kviku og gastegundum.
„Við erum að safna gögnum og fara yfir þau en það er enn ekki skýrt eða ljóst af hverju við erum að sjá þessar breytingar,” segir Sara.