Tekjur af sölu áfengis á ári heimsfaraldursins 2020 jukust um 27% frá árinu 2019. Í lítrum talið var salan 18,3% meiri.
„Veitingahús og barir meira og minna lokaðir, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli óstarfhæf vegna þess hversu fáir voru á ferðalagi og margir sem alla jafna eyða vetrinum í útlöndum komnir heim,“ er skýring sem forstjóri verslunarinnar, Ívar Arndal, gefur á auknu álagi. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.
Arðurinn sem greiddur var í ríkissjóð nam milljarði, sem er sama upphæð og í fyrra, þrátt fyrir að hagnaðurinn sé 700 milljónum meiri í ár en í fyrra. Eignir ÁTVR eru komnar upp í 7,3 milljarða.

Eftirtektarvert er að neftóbakssala dróst saman hjá versluninni um 44%, en sama tala hækkaði á milli ára í síðasta ársreikningi um 3%. Ljóst er að samkeppni við nikótínpúða hefur haft sitt að segja þar.