Körfubolti

NBA dagsins: Sagan ekki með galdrakörlunum sem fundu loks sigurseyðið

Sindri Sverrisson skrifar
Bradley Beal var stigahæstur hjá Washington í nótt þrátt fyrir að spila ekki lokaleikhlutann.
Bradley Beal var stigahæstur hjá Washington í nótt þrátt fyrir að spila ekki lokaleikhlutann. AP/Nick Wass

Gamanið mun fljótt kárna hjá Washington Wizards ef marka má söguna, þó að þeim hafi tekist að fullkomna upprisu sína með því að landa farseðli í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Washington vann Indiana Pacers af miklu öryggi í nótt í síðasta leik umspilsins í austurdeildinni, með þá Russell Westbrook og Bradley Beal í broddi fylkingar. Svipmyndir úr leiknum og helstu tilþrifin má sjá í NBA dagsins hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 21. maí

Washington var fyrr á leiktíðinni í tómum vandræðum, með aðeins 17 sigra en 32 töp. Liðinu tókst að snúa því gengi við svo um munaði en endaði þó deildarkeppnina með innan við 50% sigurhlutfall, eða 34 sigra og 38 töp.

ESPN bendir á að lið sem nái ekki 50% sigurhlutfalli hafi síðustu 33 ár þurft að sætta sig við að falla úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Miðað við það ættu Galdrakarlarnir ekki að vera mikil fyrirstaða fyrir Philadelphia 76ers í einvígi liðanna sem hefst á sunnudaginn.

Frá því að núverandi fyrirkomulag úrslitakeppninnar var tekið í gagnið árið 1984 hafa sex lið náð að vinna sig upp úr eins djúpri holu og Washington hefur nú gert. Ekkert þeirra hefur hins vegar komist í gegnum fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×