Eftir hratt hraunrennsli niður í Nátthaga um hvítasunnuhelgina virðist sem lítil hreyfing hafi verið þar á hrauntungunni í dag. Til að meta framhaldið er verið að gera nýtt hraunflæðilíkan og er vonast til að það verði tilbúið síðar í vikunni. Að því búnu verða næstu skref ákveðin.
![](https://www.visir.is/i/7C9273A91AD35AAE2D0D2DF02B5B7D2AE5E14394DB1EEEE2A6F460C3DB8236C6_713x0.jpg)
En það er ekki aðeins að hraunið ógni núna Suðurstrandarvegi og ljósleiðara þar. Jörðin Ísólfsskáli er sömuleiðis í hættu.
„Þetta er í raun og veru alveg skelfilegt því að það er líka svo mikið svæði,“ segir Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, formaður Landeigendafélags Ísólfsskála, í viðtali við Stöð 2. Það sé ekki aðeins Ísólfsskálabærinn sem virðist geti farið undir hraun heldur einnig strandlengjan til austurs sem og vegurinn, sem öllum sé annt um.
![](https://www.visir.is/i/C18F1C25269083313141CE03FF3B14CC5E9951BB1F32498C8B4762FBC777848A_713x0.jpg)
Hefðbundnum búskap var hætt á Ísólfsskála fyrir um aldarfjórðungi en jörðin er í eigu um þrjátíu afkomenda bændanna og er hún einkum nýtt til orlofsdvalar. Þar hefur þó einnig verið veitingasala og áform hafa verið um menningartengda starfsemi. Guðrún hefur áhyggjur af því að fornar minjar fari undir hraun, minjar um langa búsetusögu.
„Einhver hundruð ára og hátt í þúsund allavega sem að jörðin hefur verið nýtt til sjávarróðurs. Hérna fyrir neðan eru til dæmis gömul fiskibyrgi.“
![](https://www.visir.is/i/F1123531E1864BB6011F7038CADEE8921C98F9037294A3253A13310D5A7B4105_713x0.jpg)
Guðrún hvetur til þess að reynt verði að bægja hrauninu frá.
„Ef það væru gerðar rásir og raufir í þá átt sem hentugast væri að fá hraunið.“
Hún telur að það mætti til dæmis reyna að beina því fram af sjávarhömrum vestan við bæinn.
„Við myndum bjóða það velkomið að fara í gegnum Ísólfsskálaland og út á haf, ef einhver hefði áhuga á því,“ segir talsmaður landeigenda.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: