Erlent

Hæsti hestur í heimi er allur

Árni Sæberg skrifar
Big Jake ásamt eiganda sínum Jerry Gilbert.
Big Jake ásamt eiganda sínum Jerry Gilbert. AP/Carrie Antlfinger

Hesturinn Big Jake lést á dögunum tuttugu ára gamall. Hann var árið 2010 útnefndur hæsti hestur í heimi af heimsmetabók Guinness.

Fjölskylda í Poynette í Wisconsin í Bandaríkjunum syrgir ástkæran hest sinn Big Jake. „Jake var stórstjarna og ég segi það ekki bara af því við áttum hann. Hann var sannarlega magnað dýr, hann var einstaklega hæfileikaríkur,“ segir Jerry Gilbert, eigandi Big Jakes.

Big Jake var belgískur dráttarhestur sem vó 109 kíló við fæðingu, 45 kílóum meira en venjulegur belgískur dráttarhestur.

Árið 2010 mældi Heimsmetabók Guinness Stóra Jake 210 sentimetra frá hófum upp að herðum. Þá mældist hann rúmlega ellefuhundruð kíló að þyngd. Það gerði hann að hæsta og þyngsta hesti í heimi.

„Það er mjög hljótt hérna. Hinir hestarnir vita hvað gerðist. Ég held að þeir séu líka að syrgja af því Jake var miðpunktur athyglinnar hérna,“ segir Jerry Gilbert. „Það er risastórt tómarúm hérna, það er eins og hann sé hér enn en hann er það ekki,“ bætir hann við.

Hæsti hestur sögunnar var skírishesturinn Sampson frá Bretlandi sem var 219 sentímetrar á hæð en hann var uppi á nítjándu öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×