Liðin höfðu skilið jöfn, 1-1, í fyrri leiknum ytra þar sem Breiðablik var síst verri aðilinn. Margur bjóst við að leikurinn í kvöld yrði Blikum strembnari en þeir náðu tökunum snemma leiks er Kristinn Steindórsson kom þeim grænklæddu í forystu eftir sex mínútna leik.
Árni Vilhjálmsson tvöfaldaði forystuna um miðjan fyrri hálfleik og 2-0 stóð í hléi.
Mistök Viktors Arnar Margeirssonar urðu til þess að Dominik Fitz minnkaði muninn fyrir gestina á 68. mínútu og við tóku spennuþrungnar lokamínútur. Breiðablik kláraði leikinn hins vegar, vann 2-1, og er komið áfram í næstu umferð.
Blika bíður skoska liðið Aberdeen en þeir lögðu sænska Íslendingaliðið Häcken samanlagt 5-3 eftir 2-0 sigur þeirra sænsku í Häcken í kvöld.
Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli næsta fimmtudag.
Mörkin úr leik kvöldsins má sjá að ofan.