Innlent

Kviknaði í fólksbíl á leið inn í Hvalfjarðargöngin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá störfum slökkviliðs á vettvangi.
Frá störfum slökkviliðs á vettvangi. Aðsend

Ökumaður slapp með skrekkinn þegar kviknaði í fólksbíl hans á leið inn í Hvalfjarðargöngin að norðanverðu á þriðja tímanum í dag. Slökkvilið er að ljúka störfum á staðnum.

Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri segir ekki vitað hvað olli brunanum. Um sé að ræða fólksbíl sem sé kominn nokkuð til ára sinna. Ökumaður hafi verið einn í bílnum, komið sér út úr bílnum og komið bílnum út í kant.

Sem betur fer hafi kviknað í bílnum áður en hann var kominn inn í göngin, að sögn Jens. Umferð í norðurátt hefur gengið eðlilega fyrir sig en loka þurfti fyrir umferð að norðan tímabundið.

Unnið er að því að malbika nokkur útskot undir Akrafjalli, milli Hvalfjarðargangna og Melahverfis í dag. Er veginum til suðurs lokað og vegfarendum um suðurleið beint hjáleiðina um Akrafjallsveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×