Enski boltinn

New­cast­le að ganga á kaupunum á miðju­manninum efni­lega frá Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joe Willock skoraði átta mörk er hann var á láni hjá Newcastle á síðustu leiktíð.
Joe Willock skoraði átta mörk er hann var á láni hjá Newcastle á síðustu leiktíð. David Klein/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United er við það að ganga frá kaupum á enska miðjumanninum Joseph George Willock sem sló í gegn í norðurhluta Englands á síðustu leiktíð. Talið er að kaupverðið sé í kringum 22 milljónir punda.

Willock sló í gegn með Newcastle á síðari hluta síðustu leiktíðar þar sem hann skoraði átta mörk í 14 leikjum. Þessi efnilegi miðjumaður verður 22 ára gamall þann 20. ágúst næstkomandi og þrátt fyrir að hafa tekið þátt í alls 78 leikjum fyrir Arsenal í öllum keppnum hefur hann ákveðið að söðla um og ganga til liðs við Newcastle.

Willock tók alls þátt í 29 leikjum í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2019/2020 en var ekki í myndinni hjá Mikel Arteta á síðustu leiktíð. Tækifærin voru af skornum skammti og þó hann hafi raðað inn mörkum á síðari hluta síðustu leiktíðar þá virðist Arteta ekki hafa skipt um skoðun.

Hinn trausti blaðamaður David Ornstein greindi frá á Twitter-síðu sinni. Hann segir samninginn ekki alveg frágenginn en það ætti að styttast í að Willock verði samningsbundinn Newcastle United. 

Willock yrði fyrsti leikmaðurinn sem Arsenal selur úr aðalliðshóp sínum í sumar. Félagið hefur nú þegar eytt yfir 70 milljónum punda í nýja leikmenn en ekki fengið krónu inn á sama tíma. Fjöldi leikmanna er þó orðaður frá félaginu, þar má nefna Rúnar Alex Rúnarsson, Héctor Bellerín, Sead Kolašinac, Lucas Torreira og Ainsley Maitland-Niles.

Arsenal mætir nýliðum Brentford á föstudaginn kemur í fyrsta leik tímabilsins en Newcastle United fær West Ham United í heimsókn á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×