Skoðun

Brjósta­gjöf - vitundar­vakning um á­hrif tungu­hafta

Júlíana Magnúsdóttir og Sonja Magnúsdóttir skrifa

Undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning um áhrif tunguhafta á almenna heilsu. Með aukinni vitneskju leita foreldrar í auknum mæli eftir aðstoð ef brjóstagjöf gengur ekki sem skildi, ef barn á erfitt með að meðhöndla mat eða á í erfiðleikum með framburð. Fullorðnir einstaklingar leita sér aðstoðar ef þeir m.a. þjást af kæfisvefni, tíðum höfuðverkjum og fleiri kvillum. Tunguhaft getur haft áhrif á rétta hvíldarstöðu tungunnar, sem aftur hefur áhrif á vöxt og þroska andlitsbeina hjá börnum, á svefn, tennur og öndun (munnöndun vs neföndun)

Við erum öll með tunguband undir miðri tungunni. Þegar þetta band er stutt, stíft, þykkt eða jafnvel eins og Eiffel-turninn í laginu og það heftir hreyfigetu tungunnar tölum við um tunguhaft. Þegar vefur er vel sjáanlegur undir tungunni er talað um fremra tunguhaft. Það hefur áhrif á hreyfanleika fremri hluta tungunnar. Það er hins vegar aftara tunguhaft sem hefur mest áhrif á ungbörn því rannsóknir sýna að það eru ölduhreyfingar um miðbik tungunnar sem skipta mestu máli til að draga til sín mjólk úr brjósti eða pela. Því skiptir máli að barnið geti lyft þeim hluta tungunnar. Aftara haft sést ekki með berum augum og því líklegt að það fari fram hjá þeim sem skoðar, hafi viðkomandi ekki vitneskju um hvernig á að skoða það.

Tunguhaft er ekki eitthvað tískufyrirbrigði. Í sögulegu samhengi eru fyrstu heimildir um tunguhaft frá því á 3. öld fyrir Krist og fyrstu heimildir um aðgerð á tunguhafti frá 7. öld eftir Krist. 1794 er ártal sem kemur upp þegar spurt er um sögu tunguhafts í leitarvél. Þar kemur m.a. fram að ljósmæður hafi alltaf passað upp á að hafa langa nögl á litla fingri til að ,,skera” á tunguhaft hjá nýfæddu barni. Sem betur fer eru áhöldin orðin nútímavæddari en ýmist eru notuð skæri, skorið á með hníf eða notaður ,,leiser“.

Brjóstagjöf er náttúruleg leið til að næra barn og byggir á eðlilegu samspili milli framleiðslu brjóstamjólkur og sogi og öðrum viðbrögðum sem ungbörn fæðast með. Stundum gengur brjóstagjöf illa og eru þá brjóstagjafaráðgjafar eða talmeinafræðingar með sérhæfingu í fæðuinntöku kallaðir til ráðgjafar. Talfæraskoðun er gerð þar sem m.a. er horft eftir frávikum í munni ásamt mati á hreyfifærni tungunnar til að fullvissa sé um að barn sé að beita tungunni rétt til að draga fram mjólk úr brjóstinu. Einkenni sem gefa til kynna að rangt sog sé viðhaft eru m.a. kveisa og mikið loft, sem lýsir sér í bakflæðilíkum einkennum hjá barni og sár og stíflur hjá móður. Inngripin hafa hingað til verið lyf og notkun hjálpartækja eins og Mexíkóhatts, sem koma ekki í veg fyrir rót vandans, grip og sog barns verður ekki lagað með þeim.

Skv. rannsóknum er tíðni tunguhafta hjá nýfæddum börnum 4-10%. Þeir sérfræðingar, sem vinna með þetta fyrirbæri daglega, vilja þó meina að tíðnin sé mun hærri.

Rannsóknum á áhrifum tunguhafta fer fjölgandi, sérstaklega í ljósi þess að tunguhaft hefur ekki eingöngu áhrif á fæðuinntöku barna heldur getur það einnig haft áhrif á svefn bæði barna og fullorðinna, sem hefur ýmiskonar afleidd áhrif. Hafa ber í huga að allar rannsóknir byrja á sérfræðiáliti og væntingum skjólstæðingsins til þess. Nýjustu rannsóknirnar á tunguhöftum og áhrif þeirra fjalla einmitt um brjóstagjöf og bakflæði og hvernig tungustaða getur gefið vísbendingar um tunguhaft og er ný rannsókn undir stjórn bandaríska háls-, nef- og eyrnalæknisins, dr. Bobby Gaheri um áhrif aftara tungubands á brjóstagjöf væntanleg.

Eins og fram kemur í upphafi hefur orðið mikil vitundarvakning á meðal foreldra um áhrif tungu- og varahafta en því miður eru þeir færri sérfræðingarnir, sem hafa ,,sérhæfingu“ í að losa um stíft tunguband. Það eru þó nokkrir í röðum talmeinafræðinga, brjóstagjafaráðgjafa, tannlækna, hnykkjara og háls-, nef- og eyrnalækna sem hafa aflað sér aukinnar þekkingar á tunguhöftum og áhrifum þeirra og nokkurs konar teymisvinna hefur verið í mótun. Þessi samvinna hefur gengið vel, foreldrar hafa fengið góða fræðslu um undirbúning fyrir íhlutun og skjólstæðingi fylgt eftir í einhverjar vikur eftir íhlutun og hann fengið bót sinna mála.

Hingað til hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreitt þessa íhlutun en nú er svo komið að stofnunin ætlar að hætta að taka þátt í þessum aðgerðum að tilskipan embættis landlæknis. Ástæðan er m.a. sögð vera mikil fjölgun á ,,óþarfa“ aðgerðum! ,,Óþarfa“ aðgerðum svo að tungan geti sinnt hlutverki sínu... Hlutverk tungunnar er vanmetið þegar kemur að vexti og þroska andlitsbeina, þegar kemur að beinum og heilbrigðum tönnum, þegar kemur að öndun, svefni o.fl., o.fl. Það skiptir máli að tungan komist upp í góminn í hvíldarstöðu, sem gerist ekki þegar hún er fjötruð við munnbotninn.

Þetta finnst okkur vera sorgleg þróun þar sem fjöldi barna og foreldra hafa öðlast ,,nýtt líf“ eftir að barnið fór að nærast og sofa eftir íhlutun á stífu tungubandi og rannsóknir segja okkur að fjöldi barna á eftir að þurfa á þessari íhlutun að halda til að nærast og sofa. Þessi ákvörðun SÍ yrði til þess að ekki aðeins þyrftu foreldrar að ganga á milli lækna í leit að svörum fyrir vansæl börn sem nærast ekki heldur þurfa þeir þá líka að leggja út fyrir íhlutuninni. Þetta er líka sorgleg þróun þar sem verið er að ráðast að sérhæfingu þeirra sérfræðinga sem hafa lagt út tíma og fjármuni til að auka við þekkingu sína á þessu sviði.

Að taka ákvörðun um að fella niður niðurgreiðslu á mjög svo þarfri aðgerð hjá börnum á öllum aldri, aðgerð sem er læknisfræðilega nauðsynleg í flestum tilfellum, ýtir undir mismunun á fjölskyldum eftir efnahag og lýsir vanþekkingu á málinu. Við skorum því á embætti landlæknis til að endurskoða stöðuna og kynna sér málið betur, því íhlutun á tunguhafti á yngri árum getur sparað kerfinu þegar til lengri tíma er litið.

Júlíana Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi IBCLC

Sonja Magnúsdóttir, talmeinafræðingur, M.A., CCC-SLP




Skoðun

Sjá meira


×