Sjálfstæðisflokkurinn fengi 23,9 prósent atkvæða og sautján þingmenn, Framsóknarflokkurinn 12,5 prósent og átta þingmenn og Vinstri græn 10,9 prósent og sjö þingmenn eða samanlagt 32 þingmenn, sem er lágmarks meirihluti á Alþingi.
Ekki væri hægt að mynda þá ríkisstjórn sem reynt var að mynda með Vinstri grænum, Samfylkingu, Framsóknarflokki og Pírötum eftir síðustu kosningar.
Slík stjórn hefði aðeins tuttugu og átta þingmenn á bakvið sig. Hún þyrfti því annað hvort á sex þingmönnum Viðreisnar eða fimm þingmönnum Sósíalistaflokksins að halda til að mynda annars vegar 34 þingmanna meirihluta eða hins vegar 33 manna meirihluta.
Samfylkingin fengi ekki þingmenn í öllum kjördæmum. Hún fengi hins vegar tvo í Norðausturkjördæmi, kjördæmi Loga Einarssonar formanns flokksins, en engan í Suðurlandskjördæmi.
Það sama á við um Viðreisn. Flokkurinn fengi tvo þingmenn í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi Þorgerðar Katrínar formanns flokksins og tvo í Reykjavík norður, kjördæmi Daða Más Kristóferssonar varaformanns flokksins, en enga þingmenn í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi.
Fylgi flokkanna mælist annars svona í könnun MMR fyrir Morgunblaðið:
- Sjálfstæðisflokkur 23,9 prósent - 17 þingmenn
- Framsóknarflokkur - 12,5 prósent - 8 þingmenn
- Vinstri græn - 10,9 prósent - 7 þingmenn
- Samfylking - 10,5 prósent - 6 þingmenn
- Viðreisn - 10,4 prósent - 6 þingmenn
- Píratar - 10,6 prósent - 7 þingmenn
- Sósíalistaflokkurinn - 8,7 prósent - 5 þingmenn
- Miðflokkurinn - 6,2 prósent - 4 þingmenn
- Flokkur fólksins - 5,1 prósent - 3 þingmenn