Umjöllun og viðtöl: Valur – Stjarnan 1-2 | Valsarar misstigu sig í toppbaráttunni

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Stjarnan
Stjarnan Visir/Vilhelm

Íslandsmeistarar Vals töðuðu 2-1 á móti Stjörnunni í Pepsi Max deild karla í fótbolta í kvöld. Gestirnir frá Garðabæ eru nú ansi nálægt því að tryggja sæti sitt í efstu deild, en tapið gæti orðið dýrkeypt fyrir Valsara í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Haustið var mætt að Hlíðarenda í kvöld. Örfáar umferðir eftir, Stjarnan í heimsókn og sigur hefði tyllt Valsmönnum á toppinn. Þó mögulega einungis tímabundið því bæði Víkingur og Breiðablik spila sína leiki í 19. umferðinni á morgun. Fyrir leikinn sátu gestirnir í neðri hluta deildarinnar með 19 stig eftir mjög brösugt gengi en Valsmenn sem fyrr segir alveg við toppinn. Það voru þó að lokum bláklæddir Garðbæingar sem höfðu mikilvægan sigur 1-2 í leik þar sem Björn Bryde skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Leikurinn byrjaði ágætlega hjá heimamönnum í Val. Þeir voru meira með boltann en tókst ekki að skapa sér nein afgerandi færi. Allavega ekki strax. Þeim tókst þó auðveldlega að halda aftur af Stjörnumönnum sem mættu ekki í þennan leik til þess að spila sóknarleik framan af. Eðlilega kannski enda liðin á sitthvorum staðnum í töflunni.

Það var svo á 19. mínútu að besta færi Vals í fyrri hálfleik leit dagsins ljós. Tryggvi Hrafn Haraldsson átti þá flotta sendingu fyrir eftir góða pressu Vals á vinstri kantinum og Sverrir Páll Hjaltested fékk frían skalla á markteignum. Framherjinn gerði þó ekki nógu vel og skallaði boltann langt framhjá. Það var kunnuglegt stef hjá Sverri í dag en hann átti ekki sinn besta dag fyrir framan markið.

Annars var leikurinn í ágætis jafnvægi í fyrri hálfleik. Valsmenn meira með boltann en Stjörnumenn ágætlega skeinuhættir í bæði skyndisóknum sem og föstum leikatriðum. Það voru svo gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins í lok fyrri hálfleiks. Rasmus Christiensen braut þá á Emil Atlasyni rétt fyrir utan teig og aukaspyrna dæmt. Einar Karl Ingvarsson tók spyrnuna og gjörsamlega hamraði boltanum í vinstra hornið. Frábært skot hjá Einari sem hreinlega elskar að skora gegn sínum gömlu félögum en Einar var í herbúðum Vals í rúm fimm ár.

Síðari hálfleikur byrjaði svipað og fyrri hálfleikurinn hafði spilast. Stjörnumenn lágu djúpt og Valur átti mjög erfitt með að opna þétta vörn Stjörnunnar með Björn Berg Bryde fremstan í flokki. Sverrir Páll Hjaltested fékk sannkallað dauðafæri á markteignum en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að skófla boltanum yfir slána. Valsmenn jöfnuðu þó fljótlega leikinn. Elís Rafn gaf þá til baka á Harald Björnsson en vissi ekki af Tryggva Hrafni fyrir aftan sig. Tryggvi þakkaði kærlega fyrir sig, lék á Harald og jafnaði leikinn.

Valur tók í kjölfarið öll völd á vellinum og fengu nokkur úrvalsfæri til þess að taka forystuna. Það gekk þó ekki en það voru Stjörnumenn sem tóku af skarið. Birkir Már var þá að dútla með boltann á hægri vængnum og hinn ungi Eggert Aron Guðmundsson hreinlega hirti af honum boltann. Birkir brást við með því að brjóta á Eggerti. Það kostaði aukaspyrnu úti á vinstri væng sem Hilmar Árni teiknaði á kollinn á Björn Berg Bryde sem skoraði. 1-2 og titilbarátta Vals í stórhættu.

Það lá svo á gestunum í lokin án þess þó að heimamenn hafi skapað sér sérlega hættuleg færi. 1-2 niðurstaðan og má segja að Stjarnan hafi endanlega kvatt falldrauginn.

Hvað gekk vel?

Það er ótrúlegur lúxus sem Stjarnan býr við að eiga tvo spyrnumenn í þeim gæðaflokki sem Hilmar Árni Halldórsson og Einar Karl Ingvarsson eru í. Þeir tveir voru stórhættulegir í flestöllum aukaspyrnum og bæði mörkin komu upp úr föstum leikatriðum.

Hvað gekk illa?

Færanýting fremstu manna Vals þarf einfaldlega að vera betri. Sverrir Páll fékk fleiri en eitt dauðafæri, Tryggvi Hrafn líka og Guðmundur Andri komst nokkrum sinnum í góðar stöður. Patrick Pedersen og Kristinn Freyr sýndu lítið þegar þeir komu inná. Fréttaritari myndi kalla sókn Valsmanna bitlausa, ekki í fyrsta sinn í sumar.

Maður leiksins

Björn Berg Bryde er maður leiksins. Hann spilaði frábærlega í hjarta varnarinnar og skoraði sigurmarkið. Í raun lék samt öll varnarlína Stjörnunnar vel. En Björn hreppir hnossið.

Hvað næst?

Það er landsleikjahlé. Þó svo að það standi spjót á knattspyrnusambandinu þarf víst að spila leikina. Næstu leikir í Pepsi Max deildinni hjá þessum liðum eru 11. og 12. september. Valsmenn heimsækja Breiðablik þann 11. september í risaleik en Stjarnan fær FH í heimsókn í leik sem skiptir furðulega litlu máli.

Þorvaldur ÖrlygssonVisir/Vilhelm

Þorvaldur Örlygsson: Hugarfar leikmanna til fyrirmyndar



Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar var að vonum mjög ánægður með sína menn eftir sigurinn á Val í kvöld.

„Mér fannst leikurinn hjá okkur bara mjög góður. Það þarf að halda skipulaginu vel því þeir eru með sterka leikmenn framávið sem geta breytt leikjum. Elís var óheppinn, sá ekki manninn fyrir aftan sig og þá breyttist leikurinn aðeins og þeir náðu ágætis tökum á þessu. Fram að því vorum við að gera mjög vel“.



Björn Berg Bryde skoraði sigurmarkið annan leikinn í röð. Þjálfarinn var sáttur við hann.

„Björn Bryde er góður leikmaður og hættulegur í föstum leikatriðum. Við náðum að halda út og auðvitað er pressa á manni einu marki yfir í lokin á svona leik á móti Íslandsmeisturunum frá því í fyrra. Þeir hafa verið að berjast á toppnum en við að ströggla. Það sem ég tek helst úr þessu er að hugafar leikmanna var til fyrirmyndar eins og í allt sumar.“



Hilmar Árni og Einar Karl áttu flotta leiki á miðjunni í dag. Þorvaldur var ánægður með þessa helstu spyrnumenn liðsins.

„Við erum auðvitað með mjög flotta spyrnumenn í liðinu og mjög hæfileikaríka menn. Við erum líka mjög heppnir að eiga frábæra stuðningsmenn. Við stöndum öll saman og það koma góðir dagar líka.“



Heimir GuðjónssonVísir/Vilhelm



Heimir: Verðum að nýta landsleikjafríið vel



Heimir Guðjónsson þjálfari ríkjandi Íslandsmeistara Vals var að vonum ekki sáttur eftir 1-2 tap á heimavelli fyrir Stjörnunni.

„Mér fannst við byrja þennan leik mjög vel, fyrstu svona tuttugu mínúturnar. Vorum að opna þá og náðum að skapa okkur nokkur færi. Svo af einhverjum ástæðum þá slökum við á klónni og hleypum þeim aftur inn í leikinn og fengum á okkur mark úr aukaspyrnu rétt fyrir leikhlé. Fengum svo góð færi í síðari hálfleik en missum einbeitinguna í lokin þar sem stærsti maðurinn á vellinum fær frían skalla.“



Valsmenn fengu nokkur úrvalsfæri í stöðunni 1-1 til þess að taka forystuna í leiknum en inn vildi boltinn ekki.

„Stjarnan mætti auðvitað bara með gott leikplan og lágu til baka. Þeir sköpuðu ekki mikið af færum og þess vegna er það ennþá meira svekkjandi að þeir hafi skorað eftir fast leikatriði.“

Það vakti athygli að Haukur Páll, Kristinn Freyr og Patrick Pedersen byrjuðu allir á bekknum. Heimir var ánægður með þeirra innkomu og segir liðið ekki ætla að leggja árar í bát.

„Mér fannst þeir allir þrír koma sterkir inn í dag og lyftu leik liðsins. Við fáum einn möguleika í viðbót til þess að ná Breiðablik en það þýðir ekkert fyrir okkur að hugsa um önnur lið. Við verðum bara að nýta landsleikjahléið vel og koma klárir til leiks þá.“



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira