Enski boltinn

Byrjaði tvo af þremur leikjum í ensku úr­­vals­­deildinni en seldur til fornra fjenda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daniel James hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Daniel James hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester United. Chris Brunskill/Getty Images

Daniel James er loksins loksins á leið til Leeds United. Hann var svo gott sem búinn að semja við félagið þegar Manchester United stal honum undan nefinu á Marcelo Bielsa og fékk hann yfir á Old Trafford. Nú virðist sem Bielsa sé loks að fá sinn mann.

Vængmaðurinn frá Wales hefur byrjað tvo af þremur leikjum Manchester United það sem af er leiktíð. Báðir hafa unnist en eftir innkomu Cristiano Ronaldo er ljóst að tækifæri Daniel James verði af skornum skammti. 

Einnig er talið að vera Amad Diallo spili inn í en hann átti að fara á lán til Feyenoord í Hollandi en það datt upp fyrir.

Þá gengur sú fiskisaga að Man United sé að selja James til að Edinson Cavani geti fengið treyju númer 21 – sama númer og hann ber með Úrúgvæ – svo Cristiano Ronaldo geti fengið sjöuna hans Cavani. Hvort það sé eitthvað til í því, eða hvort það sé yfir höfuð gerlegt, er annað mál.

Fjölmiðlar á Englandi hafa hins vegar staðfest að Man United hafi samþykkt tilboð frá Leeds upp á tæplega 25 milljónir punda í leikmanninn og nú er ljóst að James hefur skrifað undir alla tilheyrandi pappíra og er orðinn leikmaður Leeds United.

Hinn 23 ára gamli James gekk í raðir Manchester United sumarið 2019 skömmu eftir að faðir hans lést. Alls lék þessi eldsnöggi vængmaður 74 leiki fyrir Man Utd, hann skoraði í þeim 9 mörk og lagði upp önnur 9 til viðbótar.

Hann mun nú hjálpa Marcelo Bielsa og lærisveinum hans í Leeds að halda sæti sínu í deildinni annað árið í röð. Leeds situr sem stendur í 15. sæti með tvö stig að loknum þremur umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×