Fótbolti

Dæmdur í 48 leikja bann í austur­ríska fót­boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér hefur portúgalski dómarinn Luis Godinho rautt spjald í portúgölsku deildinni en myndin tengdist fréttinni ekki.
Hér hefur portúgalski dómarinn Luis Godinho rautt spjald í portúgölsku deildinni en myndin tengdist fréttinni ekki. EPA-EFE/HUGO DELGADO

Rússneski knattspyrnumaðurinn Raschid Arsanukaev spilar ekki mikið skipulagðan fótbolta næstu árin.

Aganefnd austurríska knattspyrnusambandsins hefur nú dæmt hann í 48 leikja bann.

Arsanukaev missti gjörsamlega stjórn á sér eftir að dómari leiksins sýndi honum annað gula spjaldið og þar með rautt.

Leikurinn sem um ræðir var á milli liða FC Viktoria 62 Bregenz og Gofis Satteins 1b í níundu deildinni í Austurríki en hann fór fram fyrr í þessum mánuði. Arsanukaev er leikmaður Bregenz liðsins.

Arsanukaev réðst þó ekki á dómarann sem gaf honum rauð spjaldið heldur andstæðing sem hann skallaði svo illa að hinn óheppni mótherji hans nefbrotnaði.

En af hverju varð hann svona reiður? Jú dómarinn gaf honum seinna gula spjaldið fyrir tilraun til að skalla mótherja.

Arsanukaev öskraði þá að dómaranum að hann skyldi sína honum hvað það væri að skalla mann. Með þeim orðum skallaði hann andstæðing í andlitið þannig að sá hinn sami endaði nefbrotinn á spítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×