Í kjördæminu höfðu atkvæði Viðreisnar verið oftalin um níu og atkvæði Miðflokksins um fimm. Þetta veldur því að fimm frambjóðendur, sem útlit var fyrir í morgun að yrðu þingmenn, detta út og aðrir fimm koma inn.
Af þeim fimm sem detta út eru þrjár konur, og í þeirra stað koma þrír karlar. Fyrir þá tvo karlmenn sem detta út af þingi koma aðrir karlmenn inn. Í dag var útlit fyrir að konur á þingi yrðu 33 á móti 30 körlum. Nú hefur hlutfallið hins vegar snúist við, og á þingi taka sæti 33 karlar og 30 konur.
Þetta hefði verið í fyrsta skipti í sögu Evrópu sem konur eru fleiri en karlar á lýðræðiskjörnu þingi.
Konurnar þrjár sem detta út eru Hólmfríður Árnadóttir fyrir VG í Suðurkjördæmi, Lenya Rún Taha Karim fyrir Pírata í Reykjavík norður og Rósa Björk Brynjólfsdóttir fyrir Samfylkingu í Reykjavík suður.
Hér að neðan má sjá hreyfingar á jöfnunarsætum eftir endurtalninguna í Norðausturkjördæmi:
Guðmundur Gunnarsson fellur út sem jöfnunarmaður Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi og í stað hans kemur Bergþór Ólason inn fyrir Miðflokkinn.
Í Reykjavík norður fellur Lenya Rún Taha Karim út sem jöfnunarmaður Pírata og í hennar stað kemur Jóhann Páll Jóhannsson fyrir Samfylkinguna.
Og þá dettur Rósa Björk Brynjólfsdóttir út sem jöfnunarmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík Suður. Í hennar stað kemur Orri Páll Jóhannsson sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna.
Í Suðurkjördæmi dettur Hólmfríður Árnadóttir út sem jöfnunarþingmaður Vinstri grænna og Guðbrandur Einarsson kemur inn í hennar stað sem jöfnunarþingmaður Viðreisnar.
Karl Gauti Hjaltason dettur þá út sem jöfnunarmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi en það sæti tekur Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.