Formenn stjórnarflokkanna komu saman til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan hálf tvö í dag. Það var annar fundur þeirra í dag. Ríkisstjórn þeirra hélt velli í kosningunum á laugardag og jók meirihluta sinn þökk sé miklum sigri Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi sagði það ekki stóra málið hver yrði forsætisráðherra ef flokkarnir þrír endurnýjuðu samstarf sitt og neitaði því að hann gerði kröfu um að fá embættið í ljósi góðs árangurs Framsóknarflokksins. Flokkurinn bætti við sig fimm þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn stóð í stað en Vinstri græn töpuðu einum þingmanni frá kjörtímabilinu.
„Nei, við höfum sagt að við hefjum ekki þetta samtal með því að setja stólinn fyrir dyrnar í bókstaflegri merkingu á nokkurn hátt,“ sagði formaður Framsóknarflokksins.
Sagði hann opið hver veitti ríkisstjórninni forsæti og benti á að þau Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson hefðu öll reynslu af embættinu.
„Við erum að koma út úr mjög góðu ríkisstjórnarsamstarfi undir forystu Katrína en við erum hins vegar að hefja nýtt kjörtímabil,“ sagði Sigurður Ingi.
Eftir fjögurra ára samstarf þekki flokkarnir nokkuð vel hvað þurfi að ræða sérstaklega fyrir framhaldið þó að samfélagið taki líka breytingum og nýjar áskoranir skjóti upp kollinum. Hann sagðist telja raunhæft að það skýrist fyrir lok vikunnar hvort að flokkarnir hefji formlegar viðræður um nýjan stjórnarsáttmála.
Neitaði Sigurður Ingi að hann hefði rætt við aðra flokka um myndun annarrar þriggja eða fjögurra flokka ríkisstjórnar.
„Í ljósi mjög skýrrar niðurstöðu kosninganna þá er þetta held ég hið augljósa umboð sem við höfum frá þjóðinni og við tökum það,“ sagði hann.
Fréttin hefur verið uppfærð.