McLagan átti stóran þátt í mögnuðu sumri Framara sem töpuðu ekki leik í Lengjudeildinni og settu glæsilegt stigamet með því að fá 58 stig.
McLagan kom til Fram frá Roskilde í Danmörku á miðju tímabili í fyrra en hann er 25 ára Bandaríkjamaður. Hann lék alls 30 leiki fyrir Fram og skoraði í þeim 5 mörk. Víkingar þurfa ekki að greiða fyrir McLagan þar sem hann var orðinn samningslaus.
Í tilkynningu frá Fram er honum þakkað kærlega fyrir sitt framlag til félagsins og óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Hjá Víkingi er þörf á miðverði þar sem að Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen ætla að leggja skóna á hilluna þegar þátttöku þeirra í Mjólkurbikarnum lýkur. Víkingur mætir Vestra í undanúrslitum á Meistaravöllum í Vesturbæ Reykjavíkur á morgun.