Bætt staða skýrist einkum af verulegri aukningu tekna af tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi, auk þess sem tekjuskattur lögaðila skilar 16 milljörðum umfram það sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun.
„Tekjur ríkissjóðs eru engu að síður að vaxa frá lægri grunni en ef ekki hefðu komið til efnahagsleg áhrif faraldursins. Áfram er því gert ráð fyrir viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs næstu árin en hann verður þó umtalsvert minni en reiknað var með í gildandi fjármálaáætlun,“ segir í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Í kjölfar heimsfaraldursins gerðu áætlanir ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs myndi hækka í 30 prósent undir lok ársins 2020. Forsendur gildandi fjármálaáætlunar gerðu ráð fyrir áframhaldandi skuldavexti árin 2021 og 2022, upp í um 42 prósent af vergri landsframleiðslu.
Spáð er 5,3 prósent hagvexti á næsta ári og að landsframleiðslan verði þá orðin meiri en fyrir faraldurinn.
„Með öflugum viðsnúningi hagkerfisins stefnir hins vegar í að skuldastaða ríkisins verði mun betri,“ segir í tilkynningunni. Nú eru horfur á að skuldir verði um 200 milljörðum króna lægri undir lok árs 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun og nemi um 34 prósent af vergri landsframleiðslu í stað 42 prósenta.
Gert er ráð fyrir ríflega 88,4 milljarða króna fjárfestingu ríkissjóðs árið 2022 í fjárlagafrumvarpinu. Nemur hún þá 2,5 prósentum af landsframleiðslu, sem er töluvert umfram langtímameðaltal.
Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið í fjárlagafrumvarpinu er bygging nýs Landspítala, en gert er ráð fyrir að verja til þess 14 milljörðum árið 2022. Þá er gert ráð fyrir ríflega 10 milljörðum í endurgreiðslur rannsókna- og þróunarkostnaðar, 31,5 milljörðum í samgöngumannvirki, 5,2 milljörðum í byggingu hjúkrunarheimila og 1,5 milljörðum í Stafrænt Ísland.
Atvinnuleysi hefur dregist hratt saman síðustu mánuði og er nú svipað og fyrir faraldurinn. „Þrátt fyrir góðan bata á vinnumarkaði er hætt við að langtímaatvinnuleysi verði hærra en áður og róa þarf að því öllum árum að koma í veg fyrir að það festist í sessi,“ segir í tilkynningunni.
„Þar skiptir mestu að umgjörð vinnumarkaðarins sé með þeim hætti að kjarasamningar endurspegli efnahagsleg skilyrði og skili farsælli niðurstöðu.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.