Farið er lofsamlegum orðum um bókina í tímaritinu, sem er afar virt á sviði ljósmyndunar. Meðal annarra sem tilnefndir voru fyrir verk sín þetta árið voru Bill Brandt og Sebastião Salgado, sem eru meðal fremstu ljósmyndara heims.
Óður til grænlenska sleðahundsins
Hetjur norðurslóða er óður til grænlenska sleðahundsins og sambandsins sem myndast hefur milli manns og hunds í veiðimannasamfélaginu á Grænlandi.

Ljósmyndarinn hefur ferðast um Grænland í um 40 ár og hefur á þeim árum safnað myndum og sögubrotum af harðri lífsbaráttu Grænlendinga í sambýli við besta vin mannsins.
„Ég fór að mynda grænlenska hundinn sem er fyrir mér ein merkilegasta hundategund í heimi og ein elsta. Hann er á undanhaldi, það voru 30.000 til fyrir tíu árum nú eru þeir 11.000 eða 12.000. Veiðimönnum fækkar og ísinn hefur þynnst. Ungu krakkarnir mennta sig og vilja síður lifa svona lífi, sem er ekkert þægilegt líf,“ sagði Ragnar meðal annars í þættinum RAX Augnablik: Leyndardómar Roscoe fjalla, þar sem var meðal annars fjallað um bókina.
Hetjur norðurslóða er gefin út af Qerndu hér á landi og kemur út á ensku hjá Kehrer Verlag í Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.