Innlent

Sí­brota­maður í gæslu­varð­hald eftir að hafa reynt að bana fyrr­verandi unnustu

Atli Ísleifsson skrifar
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þessa efnis þar sem vísað er til rannsóknarhagsmuna og síafbrota mannsins.
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þessa efnis þar sem vísað er til rannsóknarhagsmuna og síafbrota mannsins. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gærsluvarðhald til 3. mars næstkomandi vegna fjölda afbrota, meðal annars fyrir að hafa reynt að bana fyrrverandi unnustu sinni með því að setja púða fyrir vit hennar í desember síðastliðinn.

Landsréttur hefur þar staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þessa efnis þar sem vísað er til rannsóknarhagsmuna og síafbrota. Afbrot mannsins eru rakin í úrskurðinum, en brotaferill mannsins er sagður hafa hafist á ný í júní 2021 eftir að hann losnaði úr afplánun í mars sama ár.

Vegna brotastarfsemi sinnar var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í júlí sem hafi átt að standa til loka ágúst. Hann hafi hins vegar „látið sig hverfa úr gæsluvarðhaldinu“ eftir að hafa hætt sjálfur í áfengis- og fíkniefnameðferð og svo verið handtekinn á Akureyri 22. ágúst. Maðurinn losnaði úr gæsluvarðhaldi í lok ágúst og hófst ný afbrotahrina svo í desember 2021 þegar hann réðst gegn unnustu sinni með alvarlegum brotum.

Fjölmörg brot mannsins eru til rannsóknar hjá lögreglu, meðal annars hótanir, eignaspjöll, vopnalagabrot, líkamsárásir, umferðarlagabrot, fíkniefnabrot, húsbrot og ítrekuð brot gegn nálgunarbanni.

Í úrskurðinum segir að í desember hafi hann beitt fyrrverandi unnustu miklu ofbeldi og meðal annars tekið um um háls hennar og sett púða yfir vit hennar. Þar hafi nágranni konunnar heyrt lætin og brotist inn í íbúð hennar og bjargað henni frá manninum. Mat lögreglu sé að með þessu atferli hafi maðurinn gerst sekur um tilraun til manndráps.

Ennfremur segir að rannsókn málsins sé langt komin en meðal annars sé beðið niðurstöðu meinafræðings sem meti áverkana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×