Atvinnulífið hefur áður sagt frá því að vísindamenn hvetji stjórnendur til að skoða innleiðingu vinnustaða á svefnstjórnun.
Enda margsannað að góður svefn getur skipt sköpum.
Það er því ekki ólíklegt að svefnstjórnun sé fyrirbæri sem við munum heyra meira um á næstu árum.
En taki nokkurn tíma að þróast.
Í nýlegri umfjöllun BBC Worklife koma fram nokkur dæmi um mismunandi leiðir í svefnstjórnun og þá helst eftirfarandi þrjár:
8 – 8 – 8
Þessi aðferð gengur út á að fólk þrískipti sólahringnum:
Vinni í átta klukkustundir, sofi í átta klukkustundir en nýti átta klukkustundir í annað.
Til þess að þessi stefna gangi upp, þarf að tryggja að vinnudagarnir séu ekki lengri en átta klukkustundir.
Sem fyrir sum fyrirtæki telst nokkuð stór breyting.
Í viðtali við BBC Worklife segir stofnandi og forstjóri bandarísks tæknifyrirtækis til dæmis, að í tæknigeiranum hafi það lengi tíðkast að fólk vinnur langa vinnudaga. Og státi sig jafnvel af því að sofa lítið.
Á vinnustöðum þar sem langir vinnudagar eru hluti af fyrirtækjamenningunni, getur 8-8-8 svefnstjórnunin því talist nokkuð viðamikil breyting.
Að leggja sig í vinnunni
Að geta tekið stuttan lúr í vinnunni er dæmi um svefnstjórnun. Google og Cisco eru dæmi um fyrirtæki sem lengi hafa boðið upp á aðstöðu fyrir starfsmenn sem vilja leggja sig stutta stund.
Í umfjöllun BBC Worklife er líka sérstaklega sagt frá fyrirtækinu Zappos sem er með hægindarstóla sem aðstöðu fyrir starfsfólk sem vill leggja sig í 20 mínútur.
Þá eru ýmiss evrópsk fyrirtæki farin að horfa aftur til síesta-hefðarinnar. Þar sem fólk leggur sig eftir hádegi á daginn. Síestan er enn þekkt víða á Ítalíu og á Spáni. En þar taka opnunartímar fyrirtækja þá mið af því að fólk geti lagt sig eftir hádegi, en mæti aftur til vinnu síðdegis og vinnu fram á kvöld.
Fer svefninn í fyrsta sæti?
Í kjölfar Covid er orðið ljóst að æ fleiri vinnustaðir leggja meiri áherslu en áður á góða líðan starfsfólks.
Bæði líkamlega og andlega.
Þá hafa mörg fyrirtæki lengi lagt áherslu á hreyfingu og góða næringu, boðið upp á styrki til að stunda hreyfingu, aðstöðu eða hvatt til hennar með öðrum hætti. Matur í mötuneytum er líka allt annar en áður var.
Fræðsla um mat og hreyfingu, hópefli og fleira, er oft hluti af aðgerðum vinnustaða til að efla heilsu starfsfólks.
Nú hefur svefninn bæst við og meðal þeirra sjónarmiða sem fram koma í fyrrgreindri umfjöllun er að þegar kemur að heilsu starfsfólks, ætti svefninn að vera sú áhersla sem vinnustaðir ættu að horfa mest á.
Umfjöllun BBC Worklife má lesa hér.