„Ég hefði skilið þessa byrjun ef Isaiah Manderson [nýi bandaríski leikmaður KR] hefði byrjað inn á en þeir sem byrjuðu inn á eiga að þekkja hvorn annan og geta spilað saman. Svo var þessi vitleysa þegar Isaiah lætur reka sig út af í fyrri hálfleik eins og kjáni. Brynjar fær tæknivillu og var búinn að meiðast. Þetta var bara ömurlegur fyrri hálfleikur. Það er eitt þegar skotin detta ekki og lið spila frábærlega, þá er það bara þannig, en við eigum að geta stýrt orkustiginu og því sem við leggjum fram. Við vorum ekki að gera okkar besta.“
Helgi var ósáttur með hegðun sinna leikmanna undir lok fyrri hálfleiks. KR-ingar vildu fá eitthvað meira en ekki neitt á lokasekúndum hálfleiksins þegar Björn Kristjánsson skoraði úr sniðskoti og Tómas Þórður Hilmarsson reyndi að trufla skottilraun hans.
„Já, ég tala við dómarann. Ég hef verið leikmaður og skil alveg að menn verði pirraðir en það gengur ekki að allir æsi sig og ég tala nú ekki um nýi leikmaðurinn sem er nýkominn til landsins. Hann á ekkert að vera rífa kjaft hérna. Mér fannst fullmikið að henda honum út af fyrir kjaftbrúk en allt í góðu með það.“
Helgi talaði um að Stjarnan hefði skorað nítján stig eftir sóknarfráköst en KR einungis fimm. Hann hefði viljað sjá sína menn stíga andstæðinga sína betur út.
„Ég er ánægður með seinni hálfleikinn, flott barátta og við hefðum alveg getað gert þetta að leik. Það var svolítið erfitt að vera með tuttugu stig á bakinu í hálfleik.“
„Markmiðið úr þessu er að ná í sigra, byrja á því að koma okkur í úrslitakeppnina. Við erum búnir að lenda í endalausum seinkunum og frestunum á leikjum og núna hrúgast þetta allt inn í mars, fáum sjö leiki sem er skemmtilegt að hluta til. Við þurfum að reyna klífa upp töfluna.“
KR er með fjóra útlendinga en Helgi segir að áætlunin hafi verið að vera með þrjá leikmenn. Í glugganum hafi komið upp „smá basl“ sem breytti þeim áformum og því sé KR með fjóra erlenda leikmenn á sínum snærum.
Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.