Innlent

Við­snúningur í nauðgunar­máli í Lands­rétti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landsréttur er staðsettur í vesturbæ Kópavogs.
Landsréttur er staðsettur í vesturbæ Kópavogs. Vísir/Vilhelm

Karlmaður nokkur var í Landsrétti í dag sýknaður af ákæru um nauðgun á skemmtistað í Reykjavík í maí 2018. Hann hafði áður verið dæmdur í átján mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa reynt að hafa samræði við konuna án hennar samþykkis og notfært sér ástand hennar sökum ölvunar.

Karlmaðurinn sagðist hafa farið með konunni inn á salerni skemmtistaðarins í þeim tilgangi að hafa samræði við hana. Það hafi verið með fullu samræði. Konan bar fyrir sig minnisleysi og sagðist ekki muna hvað gerst hefði eftir að hún fór inn á baðherbergið. Hana grunaði kynferðisleg misnotkun þar sem samfella hennar var fráhneppt og hún fann til óþæginda á kynfærasvæði.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi ekki neitt hafa komið fram sem staðfesti að samræði hefði átt sér stað milli ákærða og konunnar. Leggja yrði framburð hans til grundvallar því meginregla sé í sakamálaréttarfari að allan vafa beri að skýra sakborningi í hag. Var vísað til 194. greinar almennra hegningarlaga sem segir að getnaðarlimur þurfi að vera kominn að einhverju leyti inn í fæðingarveg konu til að brot gegn ákvæðinu teljist fullframið.

Hins vegar taldi héraðsdómur alveg skýrt af framburði karlmannsins að hann hefði reynt að hafa samræði við konuna og sýnt einbeittan ásetning. Hann hefði horfið frá háttsemi sinni en það hefði verið vegna erfiðleika við að koma vilja sínum fram. Var hann því sakfelldur fyrir tilraun til samræðis og dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir króna í miskabætur.

Landsréttur komst aftur á móti að annarri niðurstöðu. Karlmaðurinn hefði verið staðfastur í sinni frásögn að konan hefði komið með honum á salernið án þvingunar og hann hefði hætt kynlífsathöfnum um leið og hann áttaði sig á því að hún væri ekki fær um það.

Þá lægi fyrir í málinu myndskeið sem sýndi að konan hefði ekki verið áberandi ölvuð þegar hún gekk inn á salernið. Þótt ekkert lægi fyrir um að konan hefði gefið karlinum til kynna að hún vildi stunda kynlíf með honum, eða að einhver samdráttur hefði verið með þeim áður en atvikin gerðust á salerninu, taldi Landsréttur að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt karlmannsins.

Var hann því sýknaður af ákærunni og einkaréttarkröfu konunnar vísað frá dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×