Sport

Bernardo Silva: Erum samt ennþá í betri stöðu en Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernardo Silva gengur svekktur af velli eftir markalaust jafntefli Manchester City á móti Crystal Palace í gærkvöldi.
Bernardo Silva gengur svekktur af velli eftir markalaust jafntefli Manchester City á móti Crystal Palace í gærkvöldi. AP/Matt Dunham

Manchester City leikmaðurinn Bernardo Silva sá það góða í stöðunni þrátt fyrir markalaust jafntefli liðsins á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

City er fjórum stigum á undan Liverpool en Liverpool-menn eiga leik inni sem verður á móti Arsenal á útivelli annað kvöld. Liverpool getur þar minnkað forskot City í eitt stig en þessi úrslit þýða líka að Liverpool verður enskur meistari ef liðið vinnur alla leikina sem það á eftir.

„Við náðum ekki að skora en við áttum að skora,“ sagði Bernardo Silva við Sky Sports í leikslok.

„Það eru níu leikir eftir en það er samt betra að vera í okkar stöðu en í stöðu Liverpool. Þeir þurfa líka að mæta okkur á okkar heimavelli sem verður mjög spennandi leikur,“ sagði Silva.

„Það er aldrei auðvelt að spila á móti liði í ensku úrvalsdeildinni á útivelli. Það er alltaf betra að vinna en að gera jafntefli og við vildum ná sex stiga forskoti á Liverpool,“ sagði Silva.

„Heppni er ekki til í fótbolta. Við verðum að skora mörk og okkur tókst það ekki,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, við breska ríkisútvarpið eftir leik.

„Við spilum til að skora mörk og fá ekki mörg á okkur. Við áttum í smá vandræðum. Ég var samt mjög ánægður með frammistöðuna og hvernig við spiluðum þennan leik,“ sagði Guardiola.

Fyrir átta vikum þá var Manchester City með þrettán stiga forskot í deildinni en Liverpool var þá í þriðja sæti en átti tvo leiki inni.

„Við vorum aldrei með þrettán stiga forskot því Liverpool átti tvo leiki inni. Nú eru þetta fjögur stig og þeir eiga leik inni. Við höfum átt mjög erfiða leiki á móti Tottenham, Manchester United, Everton, Southampton og Crystal Palace. Það eru fleiri erfiðir leikir fram undan. Við erum samt ennþá á toppnum,“ sagði Bernardo Silva við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×