Körfubolti

Áttundi fimmtíu stiga leikurinn í NBA-deildinni í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Saddiq Bey átti magnaðan leik með Detroit Pistons liðinu í nótt.
Saddiq Bey átti magnaðan leik með Detroit Pistons liðinu í nótt. AP/Phelan M. Ebenhack

Hinn 22 ára gamli Saddiq Bey bættist í nótt í hóp þeirra leikmanna sem hafa skorað fimmtíu stig í einum leik í NBA deildinni í körfubolta á þessu tímabili.

Saddiq Bey skoraði 51 stig fyrir Detroit Pistons liðið í 134-120 sigri á Orlando Magic. Þetta er í áttunda sinn í þessum mánuði sem leikmaður nær að skora fimmtíu stig í leik og það er það mesta í NBA í hálfa öld.

Síðast voru átta fimmtíu stiga leikir í desember 1962 en þá voru þeir níu talsins. Bey er þrettándi leikmaðurinn á tímabilinu til að skora svo mikið í einum leik en alls hafa verið sautján slíkar stigaveislur.

Bey var að skora öll þessi stig á móti sama liði og Kyrie Irving skoraði sextíu stig tveimur kvöldum fyrr. Hann sagðist eftir leik hafa horft á hvað Irving gerði á móti Orlando.

„Ég sé svipmyndirnar og hann var mjög skilvirkur og gerði þetta í flæði leiksins. Það var frábær frammistaða til að horfa á og ég tel að það hafa verð margar frábærar frammistöður í NBA síðustu tvær vikur. Ég er þakklátur að hafa tækifærið til að spila í þessari deild,“ sagði Saddiq Bey.

Marvin Bagley III bætti við 20 stigum og 11 fráköstum fyrir Detroit liðið en þarna voru tvö neðstu lið Austurdeildarinnar að mætast. Franz Wagner var stigahæstur hjá Orlando með 26 stig.

„Enduruppbygging er alltaf ljót en það er líka fullt af fallegum stundum eins og í kvöld,“ sagði Dwane Casey, þjálfari Detroit.

Bey hafði mest áður skorað 34 stig í einum leik. Hann endaði fyrri hálfleikinn á því að skora fimm stig á minna en fimm sekúndum og var kominn með þrjátíu stig í hálfleik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×