Ísold er nefnilega bráðefnileg bæði í körfubolta sem og í frjálsum íþróttum. Um helgina hitti svo á að það voru bæði bikarúrslit hjá yngri flokkum körfuboltans sem og Meistaramót Íslands hjá 15 til 22 ára.
Ísold er í Stjörnunni í körfuboltanum en keppir með FH í frjálsum íþróttum.
Hún varð tvöfaldur bikarmeistari með Stjörnunni í körfuboltanum, fyrst í 9. flokki á laugardeginum og svo í 10. flokknum á sunnudeginum.
Í 9. flokks leiknum þar sem Stjarnan vann Keflavík í úrslitaleiknum var Ísold með 12 stig, 6 fráköst og 3 stolna bolta.
Ísold var síðan kosin besti leikmaður leiksins í 10. flokknum þar sem Stjarnan vann KR í úrslitaleik. Hún var þá með 18 stig, 8 stolna bolta og 6 stoðsendingar á þeim rúmu 19 mínútum sem hún spilaði.
Ísold hafði einnig spilað með stúlknaflokki á föstudagskvöldinu þegar Stjarnan tapaði naumlega á móti Fjölni. Í þeim leik var hún með 14 stig, 9 fráköst, 6 stolna bolta og 4 stoðsendingar.
Ísold safnaði líka gullverðlaunum á meistaramótinu í frjálsum íþróttum í hennar aldursflokki.
Ísold vann alls fern gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Hún varð Íslandsmeistari stúlkna í 60 metra grindahlaupi, stangarstökki, þrístökki og 300 metra hlaupi. Hún fékk einnig silfurverðlaun í hástökki.
Í 300 metra hlaupinu kom Ísold í mark á nýju mótsmeti þegar hún hljóp á 42,12 sekúndum.
Ísold vann því samtals átta verðlaun um helgina, sex gullverðlaun og tvö silfurverðlaun.
HSK/Selfoss varð Íslandsmeistarar félagsliða á Meistaramót Íslands 15-22 ára. Þau hlutu samtals 277,5 stig, sigruðu einn aldursflokk og unnu tíu gullverðlaun. Í öðru sæti var FH með 199 stig og Ármann í því þriðja með 192,5 stig.
- Fimm mótsmet voru sett um helgina:
- Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) Hástökk / 2,08 m / 18-19 ára
- Daníel Ingi Egilsson (FH) Þrístökk / 14,51 m / 20-22 ára
- Thomas Ari Arnarsson (Ármann) 600m / 1:32,95 mín. / 15 ára
- Ásta Dís Ingimarsdóttir (HSK/Selfoss) 600m / 1:55,38 mín. / 15 ára
- Ísold Sævarsdóttir (FH) 300m / 42,12 sek. / 15 ára