Gestirnir í HK byrjuðu vel gegn Íslandsmeisturunum og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. HK-ingar héldu forystunni lengst af í fyrri hálfleik, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 13-14, HK í vil.
Mikið jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik, en heimakonur í KA/Þór náðu loks þriggja marka forskoti þegar rúmar fimm mínútur veru til leiksloka. Það forskot létu þær aldrei af hendi og unnu að lokum góðan sigur, 26-23.
Martha Hermannsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir voru markahæstar á vellinum í dag með sjö mörk hvor fyrir norðankonur. Elna Ólöf Guðjónsdóttir var atkvæðamest í liði HK með sex mörk úr jafn mörgum skotum.
Það var heldur minni spenna í Mosfellsbænum þar sem Afturelding tók á móti Fram. Heimakonur skoruðu eitt mark á fyrstu tíu mínútum leiksins og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 9-21.
Framkonur héldu áfram að auka forskot sitt í síðari hálfleik og unnu að lokum 18 marka sigur, 38-20.
Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Fram og Katrín Helga Davíðsdóttir sjö fyrir Aftureldingu.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.