Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og forseti Skáksambands Íslands undirrituðu í dag samning um styrk til 50 ára afmælishátíðar einvígisins sögulega. Magnus Carlsen hefur þegar tilkynnt þátttöku sína í heimsmeistaramótinu í Fischer-slembiskák, sem er meðal fyrirhugaðra viðburða. Núverandi heimsmeistari í Fischer-slembiskák, Wesley So, hefur einnig boðað komu sína á mótið.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að styrkurinn nemi 43 milljónum króna. Auk heimsmeistaramótsins rennur styrkurinn til útbreiðslu á skák í skólum, alþjóðlegs kvennaskákmóts á ári kvennaskákar 2022 og til víðtækrar kynningar á einvígi aldarinnar.
Það er til marks um alþjóðlega frægð þess að söngleikurinn Chess, með tónlist ABBA-félaganna Benny Andersson og Björn Ulvaeus, er byggður á því. Svo lengi hefur ljómi einvígisins lifað að árið 2015 var frumsýnd um það kvikmyndin Pawn Sacrifice, eða Peðsfórn, en Tobey Maguire lék þar Fischer. Þá var nýtt leikrit um einvígið frumsýnt í London árið 2019, sem fræðast má um hér:
Hér má sjá þegar Boris Spasskí lagði blómsveig að leiði Fischers að Laugardælum við Selfoss skömmu eftir andlát hans árið 2008. Þar spurði Spasskí hvort það væri laust legstæði fyrir sig við hlið Fischers: