Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli er einn vinsælasti ferðamannastaður Íslendinga og landsmenn hafa verið duglegir að skíða í vetur, þrátt fyrir að þar hafi veðrið verið uppátækjasamt.
„Traffíkin er búin að vera fín. Það sem er kannski búið að vera erfiðast eru kannski lægðir. Við þurfum að fara örugglega fimmtán ár aftur í tímann til að finna jafn vindamikinn vetur,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins.
Páskarnir koma seint í ár en þó hefur snjóað norðan heiða undanfarna daga og lítið annað en frost í kortunum næstu daga.
„Það er frost framundan og við munum halda áfram að framleiða fyrir dymbilviku og páska og Andrés. Svo lengi sem það er frost þá getum við nýtt byssurnar og framleitt. Þá er ég áhyggjulaus,“ segir Brynjar spurður um hvort hann fylgist ekki grannt með veðurspánni.
Páskarnir og dymbilvikan skipta miklu máli þegar kemur að rekstrinum.
„Við erum í vertíð og páskarnir eru stærsti parturinn af þeim, mestu tekjurnar, mesta traffíkin og mesta gleðin. Bestu skíðaskilyrðin, birtan er komin,“ segir Brynjar.
Nýja stólalyftan í fjallinu var sett í gang í febrúar og svo lengi sem veðrið er gott verður hún opin.
„Við stefnum á því að hún verði opin alla daga fram að páskum. Við erum alltaf með hana opna fimmtudega til sunnudags. Svo þegar páskarnir koma og dymbilvikan þá verður hún bara keyrð daglega.“