Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mælist 22,2 prósent og Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur bankans, segist telja að hækkanirnar sem ganga nú yfir íbúðamarkaðinn geti reynst þrálátari en árið 2017.
„Ástæðan er sú að greiðslubyrði sem hlutfall af launum er enn mjög lág í sögulegu samhengi. Þetta á bæði við um óverðtryggð lán og verðtryggð, þá sérstaklega verðtryggð lán vegna þess að breytilegir vextir þeirra hafa lækkað að undanförnu,“ segir Erna Björg.
Aðgerðir Seðlabankans eru ekki farnar að hafa hamlandi áhrif á húsnæðismarkaðinn – enn sem komið er
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á miklar hækkanir fasteignaverðs. Nefndin kynnti nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við ráðstöfunartekjur neytenda sem tóku gildi 1. desember. Er hámarkið 35 prósent fyrir almennar lánveitingar og 40 prósent fyrir kaupendur fyrstu fasteignar.
„Sú staðreynd að heimilin hafa val og geta sótt í verðtryggð lán til að lækka greiðslubyrði sína, eða til að komast fram hjá greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabankans, gerir það að verkum að aðgerðir Seðlabankans eru ekki farnar að hafa hamlandi áhrif á húsnæðismarkaðinn – enn sem komið er,“ segir Erna.
Í nýlegri efnahagsspá Arion banka var gert ráð fyrir því að verðbólgan yrði aðeins tímabundið yfir 7 prósentum, hún næði hámarki á þriðja ársfjórðungi og hjaðnaði síðan hratt á næsta ári. Sú spá byggir á þeim forsendum að gengi krónunnar leggist á sveif með peningastefnunefnd, að framlag húsnæðis minnki eftir því sem líður á árið og verðbólga erlendis sé nálægt hámarki.
Gangi þessar forsendur ekki eftir er líklegt að verðbólga hér á landi mun reynast meiri og hjaðna hægar en spáð er.
Stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa áhyggjur af því að skortur á fasteignum og miklar hækkanir fasteignaverðs geri það að verkum að ómögulegt verði fyrir ungt fólk að komast inn á markaðinn.
Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Gunnars Jakobssonar, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem fasteignamarkaðurinn var efst á baugi. Ásgeir sagði viðbúið að ákveðnir hópar kæmust jafnvel ekki inn á fasteignamarkaðinn á næstu misserum.
„Ef Alþingi ætlar að hafa afskipti af fasteignamarkaðinum er mikilvægt að ekki sé farið í bein afskipti af þeim sem eru á markaðinum nú þegar. Ég tel að staða þeirra sé þokkaleg, jafnvel þótt við hækkum vexti. Fókusinn á að vera á þá sem eru ekki á markaðinum en langar að komast inn,“ sagði Ásgeir.