Málið var höfðað á þeim grundvelli að hún væri ekki kjörgeng vegna aðkomu hennar að árásinni á þinghús Bandaríkjanna í fyrra, þegar stuðningsmenn Donalds Trump ruddu sér leið inn í þinghúsið með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020.
Hópurinn vísaði sérstaklega til ummæla Greene í aðdraganda árásarinnar að 6. janúar í fyrra myndi líkjast árinu 1776, þegar Bandaríkin gerðu uppreisn gegn Bretum.
Sjá einnig: Tæplega átta tíma gat á gögnum Hvíta hússins frá 6. janúar
Áðurnefndir kjósendur vildu meina að með aðkomu sinni að árásinni hafi Greene tekið þátt í uppreisn gegn stjórnvöldum Bandaríkjanna. Fjórtándi viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna segir að hver sá sem geri uppreisn gegn Bandaríkjunum megi sitja á þingi.
Dómarinn ræddi við Greene og lögmenn hennar og lögmenn kjósendahópsins og komst að endingu að þeirri niðurstöðu að hún væri kjörgeng. Lokaákvörðunin er þó á höndum Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu.
Í samtali við AP fréttaveituna segir talsmaður ríkisstjórans að hann hafi fengið niðurstöður dómarans og muni taka ákvörðun í málinu innan skamms.
Fréttaveitan segir ólíklegt að Raffensperger meini Greene að bjóða sig fram. Hann stendur sjálfur í kosningabaráttu við frambjóðanda sem hefur fengið stuðning Trumps og líklega myndu hægri sinnaðir kjósendur taka ákvörðun gegn Greene mjög illa.