Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tilkynningu Almannavarna af tilefni þess að Vísindaráð almannavarna fundaði í gær vegna skjálftavirkni á Reykjanesskaga og þeirra hreyfinga sem þar hafa mælst.
Um 3.800 skjálftar hafa mælst við Þorbjörn undanfarna viku.
„Samkvæmt GPS mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR gervihnattamyndum mælast færslur á yfirborði jarðar sem benda til kvikusöfnunar með miðju skammt norðvestan Þorbjarnar. Þenslan byrjaði rólega um mánaðarmótin apríl/maí en er hraðari núna. Líkanagerð af færslunum bendir til að kvika safnist fyrir á 4-5 km dýpi og er að myndast innskot (silla) en það gerðist einnig þrisvar sinnum árið 2020,“ segir í tilkynningu Almannavarna.
Boðað hefur verið til íbúafundar í íþróttahúsinu í Grindavík á morgun klukkan 19:30 vegna óvissustigs sem lýst var yfir um helgina vegna jarðskjálftavirkninnar.
Í tilkynningu almannavarna er minnt á að í aðdraganda eldgossins við Fagradalsfjall hafi verið varað við að skjálfti allt að 6,5 að stærð gæti orðið í Brennisteinsfjöllum, sem hefði veruleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu.
![](https://www.visir.is/i/2291EF69C4982E11EA361DFFC28F99CF9A974C2BB23CB047C3F51CE93CF60A3B_713x0.jpg)
„Sú hætta er enn fyrir hendi. Líklegt er að slíkum skjálfta myndi fylgja grjóthrun í bröttum hlíðum og hugsanlega minniháttar skemmdir á innanstokksmunum í allt að 25 km fjarlægð frá upptökunum. Almennt getur skjálftavirkni verið hrinukennd á meðan kvika er að safnast saman í jarðskorpunni vegna þrýstings frá kvikusöfnun.“
Ítrekað er að mjög vel sé fylgst með umræddu svæði og að vísindamenn séu að meta hvort að mælanet á svæðinu sé ásættanlegt.