Lífið

Gyllti salurinn orðinn gylltur aftur á Hótel Borg

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vala Matt fékk að sjá nýja staðinn á Hótel Borg. 
Vala Matt fékk að sjá nýja staðinn á Hótel Borg. 

Á Hótel Borg er aftur kominn veitingastaður í flottum Art Deco stíl í anda hótelsins sem byggt var árið 1930.

Og hjónin Jóhann Gunnar Arnarsson og Kristín Ólafsdóttir reka nú nýja staðinn Borg Restaurant og hafa tekið allt í gegn, þar sem Gyllti salurinn til dæmis er aftur orðinn gylltur og stemningin á staðnum í anda hússins.

Hótel Borg er eitt flottasta hús landsins teiknað af Guðjóni Samúelssyni arkitekt.

„Þetta hús var glæsilegasta veitingahús landsins þegar það opnaði og í mörg ár á eftir,“ segir Jóhann sem sló rækilega í gegn sem dómari í þáttunum Allir geta dansað á Stöð 2 á sínum tíma.

„Okkur fannst þessu veitingastað sómi sýndur með því að gera hann í þessum anda á ný. Okkur langaði að gera hann í þessum stíl aftur þar sem hann nýtur sín svo vel þegar svona hátt er til lofts.“

Hann segir að margt sé í raun komið í upprunalegt horf á Borginni. Til að mynda hafa þau hjónin pússað hnífapör úr silfri sem eru frá 1930 sem fundust í kjallara hússins og eru þau notuð á staðnum.

„Ég man sjálfur eftir gyllta salnum og djammaði þar mikið á sínum tíma. Núna er hann orðinn gylltur aftur og okkur langar að bjóða fólk upp á dans seinna um kvöldið þegar fram líða stundir.“

Í eldhúsinu ræður ríkjum hinn margverðlaunaði kokkur Hákon Már Örvarsson eins og kom fram í innslagi Völu Matt sem fór og skoðaði nýja staðinn í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöld og þar kom ýmislegt skemmtilegt í ljós eins og sjá má hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×