Hinn 34 ára gamli Messi ræddi um eftirköstin af kórónuveirusmitinu við argentínska miðilinn TYC Sports í gær.
Hann fann fyrir algengum einkennum þegar hann veiktist í fyrstu; særindum í hálsi, hósta og hita. En þegar það var afstaðið átti hann áfram í erfiðleikum varðandi öndun.
„Ég glímdi við eftirköst. Þetta hafði áhrif á lungun mín. Ég sneri til baka og í einn og hálfan mánuð var eins og ég gæti ekki hlaupið því þetta hafði áhrif á lungun mín,“ sagði Messi.
Hann missti af þremur leikjum í janúar eftir að hafa greinst með smit en sneri svo aftur til keppni og var búinn að ná nokkrum leikjum fyrir einvígið við Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
„Ég sneri aftur fyrr en ég hefði átt að gera og það gerði illt verra og seinkaði batanum. En ég gat bara ekki beðið lengur. Ég vildi hlaupa og æfa – koma mér af stað. En á endanum varð þetta verra,“ sagði Messi.
Tapið gegn Real Madrid gerði út af við alla
Leikirnir við Real Madrid voru 15. febrúar og 9. mars, og eftir að PSG hafði komist í 2-0 vann Real 3-2 með þrennu frá Karim Benzema á síðasta hálftíma einvígisins.
„Þegar ég var hálfnaður [í átt að mínu besta formi] gerðist þetta með Real Madrid og það drap okkur alveg. Það gerði út af við mig og okkur alla í búningsklefanum, sem og alla í París, því við áttum okkur stóran draum í þessari keppni.
Það hvernig þetta atvikaðist allt saman, leikurinn, úrslitin… þetta var blaut tuska í andlitið,“ sagði Messi sem nú undirbýr sig fyrir leik með Argentínu gegn Ítalíu 1. júní, í Finalissima en það er leikurinn á milli ríkjandi Evrópumeistara og Suður-Ameríkumeistara.