Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands og stuðst við mælingar frá GPS stöð, sem er staðsett nærri rismiðjunni. Þar segir að gervihnattamyndir frá því í byrjun september 2021 hafi vel sýnt umfang og miðju rissins. Ekki sé hægt að styðjast við nýjar gervitunglmyndir af svæðinu þar sem snjór komi í veg fyrir að hægt sé að sjá nothæft merki.
Von sé á nýjum gervitunglmyndum í lok þessa mánaðar sem muni gefa skýrari mynd af þróun mála svo lengi sem snjólög trufli ekki úrvinnslu þeirra.
Fram kemur í tilkynningunni að líklegast sé um innflæði kviku að ræða. Módelreikningar bendi til að merkið eigi sér uppruna á um 2 km dýpi í jarðskorpunni.
Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar en síðast gaus í Öskju árið 1961. Reglulegar mælingar sýndu einnig landris á árunum 1970-1972 en hlé varð á þeim mælingum og þegar reglulegar mælingar hófust aftur árið 1983 hafði landið sigið. Síðan þá hefur mælst stöðugt landsig um 1 sm á ári þar til núna.
Óvissustig er í gildi vegna landrissins í Öskju, en því var lýst yfir í september í fyrra af ríkislögreglustjóra í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra.