Ekki stóð til að nefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar árás stuðningsmanna Trump á þinghúsið 6. janúar í fyrra hittist aftur fyrr en eftir þjóðhátíðardaginn 4. júlí. Skyndilega var þó boðað til opins fundar sem fer fram síðar í dag en ekkert kom fram um hvert tilefnið væri annað en að nýjar upplýsingar hefðu komið fram.
AP-fréttastofan segir að á fundinum beri Cassidy Hutchinson, hátt settur ráðgjafi í Hvíta húsi Trump, vitni. Hún hafi sagt nefndinni í viðtali á bak við luktar dyr að hún hefði séð Mark Meadows, skrifstofustjóra Hvíta hússins, brenna skjöl eftir að hann fundaði með Scott Perry, fulltrúadeildarþingmanni repúblikana frá Pennsylvaníu. Perry þessi var einn nokkura þingmanna repúblikana sem tóku þátt í tilraunum Trump og ráðgjafa hans til að snúa við úrslitum forsetakosninganna.
Hutchinson er sögð hafa afhent nefndinni ýmis konar gögn og gefið nokkrar skýrlur á bak við luktar dyr. Hún sagðist hafa setið nokkra fundi í Hvíta húsi um hvernig hægt væri að hnekkja úrslitum kosninganna sem Trump tapaði, þar á meðal með nokkrum þingmönnum Repúblikanaflokksins.
Ekki er ljóst hvað nefndin vill ræða við Hutchinson í dag eða hvers vegna svo mikil leynd hefur verið í kringum fundarboðið. Heimildarmenn Washington Post segja að leyndin sé að hluta til vegna trúverðugra hótana í garð vitnisins.
Önnur vitni, þar á meðal ráðherrar og embættismenn í stjórn Trump, hafa dregið upp mynd af því hvernig forsetinn og ráðgjafar hans brugguðu ráð um að snúa við úrslitum kosninganna svo að hann gæti setið áfram í embætti. Vildu þeir að repúblikanar í einstökum ríkjum samþykktu falska kjörmenn fyrir ríkin í stað þeirra réttkjörnu með vísan til stoðlausra samsæriskenninga um að stórfelld kosningasvik hefðu kostað Trump endurkjör.
Mike Pence, varaforseti Trump, átti svo að hafna því að staðfesta kosningaúrslitin á fundi beggja deild þingsins 6. janúar, í ljósi þess að sum ríki hefðu sent fleiri en einn lista af kjörmönnum. Þannig yrði Trump tryggð áframhaldandi seta á forsetastóli jafnvel þó að kjósendur hefðu hafnað honum.