Að minnsta kosti í tilfelli 1960 ellefu og tólf ára drengja sem eru á leiðinni á sitt eigið heimsmeistaramót. Keppni hefst klukkan tólf í dag og keppt langt fram á kvöld.
„Það er yfirleitt svona, verið að græja þetta fram á síðustu stundu,“ segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, sem var einn fjórmenninga á fullu við að stika nokkra af keppnisvöllunum á tólfta tímanum í gærkvöldi.
![](https://www.visir.is/i/FEA982A65FE2CEBABBE51D9F562C623D52057EBCF7C4A9B309F2CB6BE145D8AB_713x0.jpg)
Spilað verður sjö gegn sjö. Á fimmta tug félaga senda samanlagt tvö hundruð lið til þátttöku. 198 strákalið, með einstaka stelpu í liðinu, og svo eru KA og Þór með stelpulið sem etja kappi við strákana.
Sævar segir spennuna alltaf mikla í bænum fyrir mótinu. Reikna má með því að fjórir til fimm fylgi hverjum keppanda á mótið og því fjölgi fólki í bænum um tíu þúsund á meðan mótinu stendur. Leikið er miðvikudag til laugardags en Sævar segir marga staldra við til sunnudags.
Borð á fjölmörgum veitingastöðum bæjarins eru fullbókuð næstu kvöld og reikna má með örtröð í einhverja alvinsælustu sundlaug landsins, Sundlaug Akureyrar, með sínum spennandi rennibrautum.
![](https://www.visir.is/i/2A077FB83D61941EA20D25E6054EB6E608948DA9F7B3823635DE8E49B865326D_713x0.jpg)
En hvað með veðrið? Sævar vísar í veðurspár sem gera ráð fyrir ágætu veðri miðvikudag og fimmtudag. KA-menn vonast bara eftir því að það rigni ekki of mikið þegar á mótið líði. Það geri allt erfiðara þegar sé blautt. En svo verði að taka spám með fyrirvara. Spáð hafi verið úrkomu í gær en ekki fallið dropi úr lofti.
Hvernig sem viðrar verður fjörið á Akureyri næstu daga og bætist í fjörið þegar eldri knattspyrnuiðkendur mæta á árlegt Pollamót Þórs. Næstu dagar á Akureyri munu snúast um fótbolta.