Miðja landrissins er skammt vestan við Öskjuvatn og stafar af þrýstiaukningu í rótum eldstöðvarinnar.
„Það er kvikusöfnun þarna undir á um tveggja kílómetra dýpi sem veldur því að þarna verður landris og það er núna búið að rísa um 35 sentimetra frá júlí 2021,“ sagði Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Hún segir að búist sé við áframhaldandi landrisi næstu daga. „En svo getur þetta stoppað og verið þannig í mörg ár.“
Landrisinu fylgir ekki aukin skjálftavirkni en búist er við því að hún muni aukast ef til eldgoss kemur.
Veðurstofan fundaði með vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun HÍ og almannavörnum á mánudaginn vegna landrissins þar sem farið var yfir þróun mála.
„Þar var rætt um þessar nýjustu bylgjuvíxlmyndir sem sýna hvar landrisið er sem er vestan við Öskuvatnið. Hversu mikið hún er búin að rísa upp og hvað geti gerst í kjölfarið, hvort þetta sé eðlilegt og svoleiðis.“
Nokkrar sviðsmyndir
Landið seig mikið eftir síðasta eldgos í Öskju og segir Lovísa að landris geti verið lengi viðvarandi án eldgoss en það geti einnig leitt til eldgos, og þá séu nokkrar sviðsmyndir í stöðunni.
„Það fer eftir því hvar kvikan kemur upp. Ef hún kemur upp í miðju öskjuvatni þá getur komið sprengigos því þar verður samspil vatns og kviku en ef hún kemur upp í öskjujaðrinum þá getur þetta verið hraungos þannig það fer eftir því hvar hún leitar upp.“