Maðurinn var handtekinn samdægurs á vettvangi og var úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald 5. júní. Maðurinn var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í byrjun þessa mánaðar sem rennur út á morgun. Miðað er við að gefa þurfi út ákæru í málinu innan tólf vikna frá handtöku.
![](https://www.visir.is/i/7BD8F3BDCB57B3C08A1C9E4673F126A44F72206BD52CC7420CABFDB78AAD5BE1_390x0.jpg)
„[Rannsókn] gengur bara mjög vel og rannsókn verður örugglega lokið áður en þessu tímabili lýkur þannig að ákæruvaldið geti tekið ákvörðun um hvort gefin veðri út ákæra eða ekki,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarvæðinu í samtali við fréttastofu.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er grunur um að maðurinn sem lést hafi látist af völdum barsmíða og að barefli hafi verið notað. Tengsl voru milli þess látna og grunaðs banamanns hans en þeir bjuggu í sama húsi. Fréttastofa greindi frá því á sínum tíma að aðstoðar lögreglu hafði verið óskað vegna hins grunaða í tvígang daginn sem morðið átti sér stað.
Sjá einnig: Margir í hverfinu hafi vitað af ógnandi hegðun hins grunaða
Nágrannar höfðu þá kvartað yfir ofbeldisfullri hegðun af hálfu hins grunaða en hann var ekki fjarlægður af heimilinu þrátt fyrir það. Fyrrverandi nágranni lýsti í kjölfarið í samtali við fréttastofu að hinn grunaði hafi ítrekað viðhaft ógnandi tilburði og að mörgum hafi staðið stuggur af honum í lengri tíma. Þá hafi verið ljóst að maðurinn þyrfti sértæk úrræði.
Lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvort maðurinn hafi játað eða neitað sök. Þá gefur hún ekkert upp um mögulegt morðvopn eða dánarorsök.